Skoðun

Aðgerðir skólastjórnenda gegn einelti

Svanhildur María Ólafsdóttir skrifar
Í flestum ef ekki öllum skólum landsins er að finna stefnumótandi aðgerðaáætlanir eða forvarnir gegn einelti. Það að taka á einelti í skólum er á ábyrgð skólastjórnenda, en vinna þeirra að þessum málaflokki gleymist stundum, sérstaklega ef erfið eineltismál koma í samfélagslega umræðu. Því er ástæða til að skoða betur hvaða aðgerðir eru í gangi í skólum landsins. Það skal tekið fram hér, að skólar eru mislangt á veg komnir í baráttunni gegn einelti og hver skóli hefur sinn háttinn á.

Eitt af því sem skólastjórnendur vinna með er að auka sýnileika eineltis. Það gera þeir með því að tala gegn einelti við sem flesta hópa. Þeir ræða þessi mál við nemendur, starfsmenn og foreldra en einnig við aðra aðila sem koma að uppeldi barnanna í nánasta umhverfi. Samvinna og samræða um málin er öllum til góðs og það að taka á málum með svipuðum eða sama hætti styrkir þau skilaboð að einelti sé ekki liðið í skólaumhverfinu.

Skólastjórnendur vinna einnig að þessum málum í innra starfi skólans með því til dæmis að tilnefna verkefnisstjóra eða stýrihóp yfir stærri verkefnum sem falla til innan veggja skólanna þar á meðal eineltismálum. Það að einhver stýri í heild í hvaða farveg málum er komið, skiptir miklu og eykur líkur á að verkefnum sé sinnt áfram, en oft vilja „átaksverkefni“ renna smám saman út í sandinn.

Skólastjórnendur fylgja áætlunum um einelti eftir með ýmsum leiðum. Í skólum má finna umræðuhópa hjá starfsfólki þar sem málin eru rædd, oft í upphafi skólaárs, en þá er áhrifaríkast að leiðrétta hegðun nemenda. Einnig ef eineltismál koma upp eða niðurstöður mælinga liggja fyrir. Margir umsjónarkennarar halda bekkjarfundi með nemendum þar sem markmiðið er jákvæð og uppbyggileg umræða með það að markmiði að fyrirbyggja einelti.

Flestir ef ekki allir sem hafa áætlanir í gangi gegn einelti mæla árangurinn að minnsta kosti árlega. Í slíkri könnun er skoðað hvort einelti sé til staðar og hver afstaða umhverfisins er til eineltis. Mælingin bendir á hvar eineltið á sér stað og af hvaða tagi það er. Niðurstöðurnar sýna hvað er gert vel og hvar hægt er að bæta sig. Markmiðið er að sjálfsögðu að gera betur en síðast og niðurstöðurnar eru svo notaðar í áframhaldandi aðgerðir gegn einelti.

Skólastjórnendur hafa sums staðar komið á einhvers konar eftirlitskerfi eða eineltisteymi sem vinna með niðurstöður mælinga og sjá um skráningar og úrvinnslu á eineltismálum. Virkt eftirlit skiptir öllu máli því það skapar öryggi og eflir samkennd. Það dregur úr einelti og eineltisaðstæðum og tekur á hegðunarerfiðleikum sem tengjast einelti bæði á beinan og óbeinan hátt. Þá má finna viðbragðsáætlanir þar sem fylgst er með nemendum og reynt að greina slæm samskipti sem fyrst og bregðast við þeim þegar þau koma upp. Öll mál þar sem grunur leikur á að einelti eigi sér stað eru sett í viðeigandi ferli, yfirleitt vísað í fyrstu til umsjónarkennara sem kannar málið. Það gerir hann með því að afla sér upplýsinga, tala við hlutaðeigandi aðila og upplýsa um mál sem þarf að fylgjast með. Með því er öryggi barnanna best tryggt og afskiptin í réttum farvegi.

Margir skólastjórnendur halda kynningarfundi að hausti og bekkjarfundi með foreldrum þar sem þeir fá kynningu á stefnu og verkferla hvað varðar eineltismál. Niðurstöður mælinga eru svo kynntar þegar þær liggja fyrir. Góð samskipti við foreldra eru mikilvæg því engin úrvinnsla verður í eineltismálum nema í samvinnu við heimili barnanna.

Af framangreindu má sjá að aðgerðir skólastjórnenda til að vinna bug á einelti eru margs konar og markmiðið er að einelti hverfi úr skólum.




Skoðun

Sjá meira


×