Erlent

Um tuttugu sendiráðum lokað á morgun

Þrátt fyrir sprengjuárás á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo fyrir ári hikar Charb ekki við að birta fleiri myndir.
Þrátt fyrir sprengjuárás á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo fyrir ári hikar Charb ekki við að birta fleiri myndir. nordicphotos/AFP
Birting nýrra skopmynda af Múhameð spámanni í franska tímaritinu Charlie Hebdo hefur aukið enn á þá spennu sem verið hefur út af ögrandi myndbandi sem gert var í Bandaríkjunum.

Frönsk stjórnvöld brugðust við birtingu skopmyndanna með því að herða öryggisráðstafanir og verða frönsk sendiráð í um tuttugu löndum lokuð á föstudaginn, bænadag múslíma. Þá hafa frönsk stjórnvöld bannað mótmæli gegn bandaríska myndbandinu, sem fyrirhuguð voru í París á laugardag.

„Það er óþarfi að láta átök sem varða Frakkland ekkert koma hingað til lands,“ sagði Jean-Marc Ayrault, forsætisráðherra Frakklands. Ofbeldi af hálfu móðgaðra múslíma og ögranir af hálfu Vesturlandabúa hafa enn á ný vakið upp umræðu um tjáningarfrelsið og mörk þess í mörgum Evrópulöndum.

Ayrault forsætisráðherra sagði að frönsk stjórnvöld myndu eftir sem áður tryggja tjáningarfrelsið, en hvatti menn til að „beita því af ábyrgð og með virðingu“.

Ofbeldi í tengslum við mótmælin gegn bandaríska myndbandinu hafa kostað að minnsta kosti þrjátíu manns lífið í sjö löndum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×