Skoðun

Samráð í sátt

Ketill B. Magnússon skrifar
Þann 17. september nk. eiga Heimili og skóli – landssamtök foreldra 20 ára afmæli. Við þau tímamót er rétt að spyrja hvort þörf er á slíkum samtökum? Fyrir tveimur áratugum var hrópandi þörf fyrir landssamtök foreldra. Mikil gjá var enn þá milli skóla og heimila í landinu. Grunnskólar voru tvísetnir og vissu foreldrar ekki fyrr en í byrjun september ár hvert hvort börnin þeirra ættu vaktina fyrir eða eftir hádegi þann veturinn. Þá voru ekki til frístundaheimili og foreldrar þurftu bara að gjöra svo vel að skipuleggja vinnu sína í kringum skólagöngu barnanna eða semja við ættingja um að gæta þeirra part úr degi. Fjöldi barna fékk húslykil um hálsinn og skyldu sjá um sig sjálf þar til foreldrarnir komu heim úr vinnu. Foreldrar sáu að þeir urðu að standa saman til að fá þessu skipulagi skólanna breytt. Það var ekki síst vegna samstöðu og þrýstings samtaka foreldra sem grunnskólanum var breytt og hann gerður einsetinn.

Hlutverk foreldraForeldrar gegndu takmörkuðu hlutverki í skólagöngu barna sinna áður fyrr. Komu oftast bara í skólann í foreldraviðtal einu sinni á ári, en oftar ef þau voru kölluð til skólastjórans vegna hegðunarvandamála barna sinna. Foreldrafélög voru fátíð og starf þeirra hafði lítið með dagleg störf skólans að gera. Smám saman breyttist þetta viðhorf, meðal annars fyrir þrýsting samtaka foreldra, og í dag eiga foreldrar lögskipað sæti fyrir fulltrúa sína í stjórnskipulagi skóla á öllum skólastigunum þremur, leik-, grunn- og framhaldsskóla. Almennt er viðurkennt, bæði hjá menntayfirvöldum og í skólum landsins, að foreldrar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í skólunum. Bæði við að styðja við skólagöngu barna sinna og einnig við að veita skólunum heilbrigt aðhald. Foreldrar verða þannig að gæta vel að þeim árangri sem náðst hefur. Hann er ekki sjálfgefinn. Menntayfirvöld hafa sett sér það markmið að kalla alltaf til fulltrúa foreldra við mótun skólastefnu í landinu. Þegar kemur að menntamálum þá eru foreldrar mikilvægur hagaðili og á þá verður að hlusta ef við viljum búa í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Í hverju felst samráð?Sveitarfélögin í landinu fara með málefni leik- og grunnskólans og undanfarin ár hafa verið þeim fjárhagslega erfið. Vissulega reyna sveitarstjórnarmenn að hagræða í skólastarfinu og breyta til. Skólinn er einnig sífellt í faglegri þróun og því eru breytingar þar eðlilegar. En, of oft hafa komið upp mál að undanförnu þar sem foreldrar eru óánægðir með hvernig sveitarfélögin standa að breytingum. Þeir kvarta undan því að ekki sé haft nægjanlegt samráð. Þessi sömu sveitarfélög telja gjarnan að þau sýni mikið og gott samráð. Búið sé að halda svona marga kynningarfundi, fylgja tímaáætlunum og senda bréf. Greinilegt er að foreldrar og sveitarstjórnir hafa ekki sömu væntingar og skilning á því hvað nægjanlegt samráð er.

Umræðan færð á næsta stigHeimili og skóli – landssamtök foreldra telja mjög brýnt að aðilar skóla öðlist sameiginlegan skilning á hvernig standa skuli að breytingum á skólum. Við viljum vinna að sameiginlegum skilningi á hugtakinu „samráð“ og færa umræðuna á næsta stig, öllum til heilla. Landssamtök foreldra telja það hlutverk sitt að vinna áfram að hag foreldra og barna.




Skoðun

Sjá meira


×