Innlent

Evrópa tekur lambið af matseðli í kreppu

Bandaríkjamenn hafa flutt inn íslenskt lambakjöt undanfarin ár og er það selt þar sem íslensk vara í mörkuðum Whole Foods.
Bandaríkjamenn hafa flutt inn íslenskt lambakjöt undanfarin ár og er það selt þar sem íslensk vara í mörkuðum Whole Foods.
Útflutningur á lambakjöti til ríkja innan Evrópusambandsins (ESB) minnkaði úr 640 tonnum fyrstu sex mánuði síðasta árs í 250 tonn á sama tímabili í ár. Ástæðan er samdráttur í efnahagskerfi ríkjanna. Á sama tíma jókst útflutningur lítillega til landa utan ESB, eins og Noregs og Færeyja.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, segir evrópska markaði hafa verið sérstaklega erfiða undanfarin misseri, en þó náist yfirleitt að koma afurðunum í verð þó þær séu ekki fluttar úr landi.

„Það hefur verið allt í lagi. Auðvitað leita menn alltaf leiða til þess og heimamarkaðurinn er enn þá sterkastur,“ segir hann. „En það er ansi mikill munur á því hvað er flutt til ESB í ár og eins og þetta var í fyrra og það er klárlega kreppan í Evrópu sem er að hafa þar áhrif.“

Árið 2010 var metár í útflutningi á lambakjöti hér á landi, en um leið og efnahagskreppan fór að láta sjá sig í Evrópu, drógu menn saman seglin.

„Það er annað neyslumynstur þar,“ segir Sigurður. „Lambakjötið er að keppa við annað kjöt hér, en í Evrópu eru menn fljótari að skera það út af matseðlinum þegar harðnar í ári. Og þetta á við um fleiri afurðir en lambakjöt.“

Íslenskir sauðfjárbændur stofnuðu regnhlífarsamtök fyrir markaðssetningu á betra lambakjöti fyrir smærri og dýrari heimsmarkaði í fyrra.

Samtökin heita Iceland Lamb og halda utan um markaðssetningu sjö íslenskra lambakjötsframleiðenda.

Sigurður segir að með slíkri markaðssetningu sé verið að hafa áhrif á markaði sem gefi betra verð og fylgi kjötinu allt til enda, en uppruni íslensks lambakjöts týnist víðast hvar í söluferli erlendis og er kjötið því einungis selt sem innflutt, nema á dýrari mörkuðum.

„Neytandinn verður meðvitaður um að varan komi héðan og myndar tengsl við hana og framleiðslulandið,“ segir Sigurður. Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að mikil eftirspurn væri á mörkuðum í Asíu og Ameríku eftir betra lambakjöti og verið væri að horfa til landa eins og Sádi-Arabíu, Singapúr og Kanada til útflutnings, en Bandaríkjamarkaður og smærri markaðir í Rússlandi hafa flutt inn íslensk lambakjöt í nokkur ár. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×