Skoðun

Okkar veikasta fólk

Björn M. Sigurjónsson skrifar
Þriðjudaginn 11. september verða haldnir minningartónleikar um mann sem lést á götum Reykjavíkur. Maðurinn var langt leiddur af áfengis- og vímuefnafíkn, lífshættulegum sjúkdómi sem kalla má faraldur í íslensku samfélagi. Af kynslóð fimmtán ára Íslendinga eru níu prósent líkur á því að stúlkur muni leita sér meðferðar einhvern tíma á ævinni. Líkurnar á því að drengir leiti sér meðferðar eru mun hærri eða átján prósent. Af núlifandi Íslendingum, fimmtán ára og eldri, hafa rúmlega sjö prósent komið til meðferðar hjá SÁÁ.

Um leið og við minnumst þessa manns er ástæða til að beina sjónum að þeim viðhorfum samfélagsins sem valda því að fárveiku fólki er úthýst og það gert að utangarðsfólki.

Á götum Reykjavíkur er talið að séu um 50-70 manns sem eru svo veikir af áfengis- og fíknisjúkdómum að þeir hafa litla von um að ná bata. Þeir búa utangarðs, ekki sakir þess hvernig sjúkdómurinn hefur leikið þá, heldur vegna þess að samfélagið hefur hafnað þeim, úthýst þeim og gert þeim ókleift að lifa og búa meðal manna. Hindrun þeirra til samfélagsins býr ekki í sjúkdómnum heldur viðbrögðum samfélagsins við sjúkdómseinkennum áfengis- og vímuefnafíknar.

Úthýsingin er grundvölluð á þeirri almennu en röngu skoðun að þessir langveiku einstaklingar hafi haft einhvers konar val um „þá leið sem þeir kusu sér“, eða „ekki haft styrk og heiðarleika til þess að snúa við blaðinu“. Með úthýsingu finni þeir hversu harkalegt það er að vera utangarðs svo þeir sjái að sér og taki lækningu. Þessi aðferð er fáheyrð við meðferð annarra sjúkdóma. Þá hefur örlað á þeirri „lausn“ að gera þeim skýli, færa þá úr sjónmáli almennings, aðferð sem ber nokkurn blæ af viðhorfum fyrri alda gagnvart holdsveikum og berklasjúkum.

Áfengis- og fíknisjúkdómar leggjast misþungt á einstaklinga, sumir verða lífshættulega veikir hratt en hjá öðrum getur sjúkdómurinn þróast á löngum tíma. Sjúkdómseinkenni langdrukkinna einstaklinga geta gert þá erfiða viðskiptis, dómgreind þeirra er brostin, hugsun óskýr og hegðun þeirra erfið fyrir almenning að fást við. En svo er einnig um marga aðra sjúkdóma. Það afsakar ekki það viðhorf að úthýsa veiku fólki og vísa því frá mannlegu samfélagi.

Nær væri að yfirvöld og almenningur gengjust við því að okkar veikasta fólk þjáist af sjúkdómi sem heilbrigðisyfirvöldum og félagslegu kerfi ber að meðhöndla sem sjúkdóm en ekki sem valkvæða hegðun. Um leið og við minnumst mannsins sem lést skulum við taka höndum saman um viðhorfsbreytingu gagnvart okkar veikasta fólki.




Skoðun

Sjá meira


×