Innlent

Leita svara um uppruna í arfgerð makríls

Verkefnið getur stuðlað að sjálfbærum veiðum. fréttablaðið/anton
Verkefnið getur stuðlað að sjálfbærum veiðum. fréttablaðið/anton
Vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar, Matís og Háskóla Íslands ásamt norskum, færeyskum, grænlenskum og kanadískum vísindamönnum rannsaka arfgerð makríls í Norður-Atlantshafi í samvinnu við útgerðarfyrirtæki. Markmiðið er að varpa ljósi á uppruna makríls innan íslenskrar, færeyskrar og norskrar lögsögu, segir á heimasíðu Hafró.

Um er að ræða þverfaglegt verkefni sem byggir á söfnun makrílsýna á mismunandi svæðum og tímabilum og úrvinnslu þeirra með tilliti til DNA-arfgerða, líffræðilegra upplýsinga, vinnslueiginleika ásamt umhverfisgögnum. Jafnframt er stefnt á að greina stofngerð makríls í Norður-Atlantshafi, eða fjölda stofneininga og hvort blöndun eigi sér stað milli ólíkra stofna á veiðislóð, bæði innan Evrópu sem og milli Evrópu og N-Ameríku.

Markmiðið er að verkefnið afli mikilvægra vísindagagna sem geta varpað frekara ljósi á breytingar á útbreiðslumynstri makríls í Norður-Atlantshafi.

Í verkefninu er byrjað á að þróa DNA-erfðamörk fyrir makríl. DNA-erfðamörkin eru notuð sem tæki til stofn- og upprunagreininga í þeim tilgangi að stuðla að sjálfbærum veiðum og hjálpa til við að spá fyrir um breytingar á útbreiðslu makríls í framtíðinni.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×