Innlent

Frakkar stórtækir í fiskkaupum

Það eru Frakkar sem kaupa mest af Íslendingum af ferskum þorski.
fréttablaðið/stefán
Það eru Frakkar sem kaupa mest af Íslendingum af ferskum þorski. fréttablaðið/stefán
Gríðarleg magnaukning hefur orðið í útflutningi á ferskum þorski og ýsu til Frakklands á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í samantekt Landssambands smábátaeigenda úr gögnum Hagstofu Íslands. Aukningin er 49% í þorskinum og 127% í ýsu.

Frakkar kaupa langmest allra þjóða héðan af ferskum þorski eða um helmingi meira en Bretar sem eru næstir. Alls hafa tæp 40% af öllum ferskum þorski verið seld til Frakklands á fyrstu sjö mánuðum ársins á móti 35 prósentum í fyrra.

Veruleg aukning er einnig á útflutningi til Belgíu, Bandaríkjanna og Sviss sem eru í þriðja til fimmta sæti yfir helstu kaupendur okkar af ferskum þorski. Útflutningsverðmæti á ferskum þorski á fyrstu sjö mánuðum þessar árs nemur 12,4 milljörðum. Fersk ýsa skilaði tæpum 3,4 milljörðum í útflutningsverðmæti á tímabilinu janúar-júlí þessa árs, sem er 648 milljónum meira en á sama tímabili í fyrra.

Bretar kaupa langmest af ýsu héðan og var hlutfallið 46% á þessu ári. Næstmest er flutt út til Bandaríkjanna og þá til Frakkalands. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×