Skoðun

Einelti og ábyrgð skólastjórnenda

Svanhildur María Ólafsdóttir skrifar
Skólastjórnendur bera ábyrgð á því að starfsemi skólanna fari að lögum og þar sem einelti meðal barna fer yfirleitt fram í skólanum eða í tengslum við hann þá er ábyrgð þeirra á að takast á við þennan vanda mikil. Stundum fer umræðan fram með þeim hætti að allt sem skólastjórnendur eru að vinna með á þessum vettvangi fellur í skuggann. Því verður hér reynt að varpa ljósi á það starf sem skólastjórnendur, kennarar og starfsmenn skóla vinna til að draga úr einelti.

Einelti í skólum hefur verið meira í umræðu manna á meðal síðustu ár og þjóðfélagið allt orðið meðvitaðra um hve afdrifarík áhrif það getur haft á líf einstaklinga eins og því miður dæmin bera með sér. Segja má að menn séu sammála um að einelti feli í sér athöfn eða hegðun sem særir á einhvern hátt þann sem fyrir henni verður. Þá felur einelti í sér endurtekningu og oftast stendur þolandinn höllum fæti gagnvart gerandanum sem er yfirleitt ekki einn að verki heldur eru þeir fleiri saman. Þó svo að flestir hafi einhverja hugmynd um það hvað einelti er, þá getur upplifun nemenda verið mismunandi og löggjafinn hefur ekki sett fram skilgreiningu á einelti í lögum um grunnskóla og ábyrgð skólastjóra. Margt er þó að finna í grunnskólalögunum og nýrri reglugerð um ábyrgð og skyldur, sem snýr að andlegri og félagslegri líðan barna og hefur forvarnargildi gegn einelti. Almennt eru skólastjórar, kennarar og aðrir starfsmenn skóla að vinna eftir þessum þáttum.

Fyrst ber að nefna stefnumótandi forvarnaráætlanir sem settar eru fram í hverjum skóla þar sem fram kemur hvernig ætlunin er að koma í veg fyrir einelti og ekki síst hvernig bregðast á við slíkum tilvikum. Margs konar áætlanir hafa verið í gangi en sú algengasta er norsk að uppruna, kennd við Olweus og hefur verið unnið eftir þeirri aðferðafræði í mörgum grunnskólum á Íslandi frá því 2002. Árangurinn hefur verið nokkuð sveiflukenndur enda erfitt að mæla hann og aðferðir til þess mismunandi. Sumir skólar hafa náð ágætum árangri en aðrir standa í stað.

En áætlanir ná skammt ef þeim er ekki fylgt eftir og því hlutverki sinna skólastjórnendur, kennarar og starfsfólk af metnaði. Áætlanirnar fela yfirleitt í sér einhvers konar tæki og tól til að koma í veg fyrir og taka á einelti og þarf því að byggja slíkt inn í daglegan skóladag og þá vinnu sem fram fer í skólunum. Það þýðir oft breytta starfshætti, útdeilingu á ýmsum verkþáttum og hvað annað sem hægt er að gera til að dreifa ábyrgð.

Að byggja upp skólabrag án eineltis gerist ekki á stuttum tíma. Því þarf að styrkja góðu þættina í skólastarfinu og byrja að vefa inn nýja þætti til að vinna á eineltinu. Athuganir í atvinnulífinu sem snúa að fyrirtækjabrag sýna að það getur tekið allt að 15 árum að festa breytingar í sessi og það sama á við í skólunum. Að skólastjórnandi vinni af heilindum eftir eineltisáætlunum styrkir mjög skólabraginn því þá sjá bæði starfsmenn og nemendur að verið er að vinna af alvöru. Fordæmið hefur mikið að segja til að byggja upp traustan grunn og mikilvægust er vitund og virk þátttaka nemenda og starfsmanna.

Eitt af því sem skólastjórnendur vinna að er að gera eineltismál sýnilegri í samfélaginu bæði með því að ræða þessi mál innan veggja skólans en einnig við foreldra og aðra aðila sem að uppeldi barna koma. Má til dæmis nefna að skólastjórnendur hafa reynt að koma á samvinnu við ýmsa aðila eins og íþróttafélög til þess að allir gangi í takt og tekið sé á hlutunum á sama hátt og í samvinnu aðila. Lykilorðið er hér samvinnan um að gera það sem er best fyrir börnin.

Því blæs Skólastjórafélag Íslands til ráðstefnu undir yfirskriftinni Unnið gegn einelti – ábyrgð og skyldur, 25. september kl. 13-16 á Grand hótel þar sem ábyrgð og aðgerðir skólastjóra gegn einelti verða til umræðu. Tilgangurinn er að efla málefnalega umfjöllun og styrkja samvinnu allra aðila sem að uppeldi barna koma til að berjast við vágestinn einelti.




Skoðun

Sjá meira


×