Erlent

Hjálparsamtök rekin frá Pakistan

Höfuðstöðvar Save the Children í Pakistan kunna að verða mannlausar á næstunni.Nordicphotos/afp
Höfuðstöðvar Save the Children í Pakistan kunna að verða mannlausar á næstunni.Nordicphotos/afp
Öllu erlendu starfsfólki hjálparsamtakanna Save the Children hefur verið gert að yfirgefa Pakistan innan tveggja vikna. Engin skýring var gefin á fyrirskipuninni, en fréttaritarar á staðnum telja fullvíst að ástæðuna megi rekja til aðgerðarinnar sem leiddi til dauða Osama bin Laden.

Pakistanskur læknir var handtekinn í kjölfar aðgerðarinnar og sakaður um landráð af þarlendum yfirvöldum. Bandarísk yfirvöld staðfestu í kjölfarið að læknirinn hefði veitt mikilvægar upplýsingar sem leiddu til þess að Osama bin Laden fannst og kröfðust þess að honum yrði sleppt úr haldi.

Nú hefur komið í ljós að læknirinn átti í samskiptum við hjálparsamtökin, og það er talið meginástæða þess að þeim hefur nú verið gert að pakka saman og fara.

Talsmaður Save the Children fullyrðir að læknirinn hafi aldrei þegið laun fyrir störf á vegum samtakanna þótt hann hafi sótt ráðstefnu þeirra skömmu fyrir handtökuna.

Fulltrúi Save the Children í London segir að óskað hafi verið eftir formlegum skýringum á brottrekstrinum. Enn væri ekki ljóst hvort þeim yrði leyft að senda annað starfsfólk til Pakistan í stað þess sem þyrfti að fara. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×