Innlent

Yfir þúsund sprengjur fundnar á Reykjanesi

Frá Miðnesheiði þar sem herinn hafði aðstöðu.
Frá Miðnesheiði þar sem herinn hafði aðstöðu. mynd/ teitur.
Á annað þúsund sprengjur og skot hafa fundist við hreinsunarstarf Landhelgisgæslunnar á Reykjanesi síðustu fimm ár. Sigurður Ásgrímsson, deildarstjóri hjá Gæslunni, segir starfið hafa gengið vel og átakinu ljúki senn. Skýrsla um framvinduna er væntanleg innan skamms.

„Við erum búnir að gera mikið átak í samstarfi við Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, um að hreinsa svæðin næst Keflavík, sem voru nýtt sem skotæfingasvæði í stríðinu og eftir það, og það hefur gengið þokkalega vel. Auðvitað er alveg útilokað að lýsa því yfir að svæðið sé orðið fullkomlega hreint, en allavega hefur mikið unnist í þessu."

Svæðin sem um ræðir eru Vogaheiði og svæðið í kringum Patterson-flugvöll, en þar stóð bandaríski herinn fyrir skotæfingum allt fram til ársins 1960. Hreinsunarsvæðið er afar víðfeðmt, á Vogaheiði er rætt um fimmtán ferkílómetra og Patterson-svæðið er um tólf ferkílómetrar.

„Þetta eru mikið til fallbyssukúlur, sprengjuvörpusprengjur og svo skot af öllum stærðum," segir Sigurður. Hann segir mikið af því sem finnist vera virkar sprengjur sem mikil hætta stafi af.

„Sprengjurnar virkjast við að vera skotið, en tíu til tólf prósent af þeim sem skotið er virka ekki í fyrstu, af einhverri ástæðu. Þannig liggja þær, kannski í allt að 60 ár, bæði ofan jarðar og neðan. Þá er þetta orðið mjög tært, en kúlan er þá í fínu lagi og sprengiefnið líka, og þá er það orðið mjög hættulegt."

Sigurður segir ástandið nú vera orðið nokkuð gott á svæðunum og ætti ekkert að koma í veg fyrir uppbyggingu, til dæmis á Patterson-svæðinu sem liggur neðan við gamla varnarsvæðið, Ásbrú.

- þj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×