Erlent

Missa sinn helsta bandamann

Gagnrýnir opinskátt Hezbollah-samtökin fyrir stuðning við Assad Sýrlandsforseta.
Gagnrýnir opinskátt Hezbollah-samtökin fyrir stuðning við Assad Sýrlandsforseta. fréttablaðið/AP
Andstæðingar Hezbollah-samtakanna í Líbanon hafa verið að færa sig upp á skaftið undanfarið, enda telja þeir skammt í að stjórn Bashers al Assad Sýrlandsforseta falli. Assad hefur verið helsti stuðningsmaður Hezbollah-samtakanna og ítök þeirra í Líbanon virðast að nokkru háð áframhaldandi stuðningi hans.

„Guð hafi það, Nasrallah, ég mun ekki láta þig komast upp með að sofa á nóttunni,“ segir klerkurinn Ahmad Assir, einn helsti andstæðingur Hezbollah í Líbanon, og beinir orðum sínum að Hassan Nasrallah, leiðtoga Hezbollah.

„Þeir hafa niðurlægt okkur nógu lengi. Þetta snýst um virðingu okkar núna. Ég get ekki lifað svona lengur, það er komið nóg,“ hrópar Assir, sem til skamms tíma var lítt þekktur klerkur í Líbanon en nýtur nú vaxandi vinsælda meðal súnní-múslíma, ekki síst vegna þess hve opinskátt hann hefur gagnrýnt Hezbollah, samtök sjía-múslíma.

Vinsældir Hezbollah hafa að sama skapi dalað og þá ekki síst vegna þess að þau hafa dyggilega stutt Assad Sýrlandsforseta gegn uppreisnarmönnum þar í landi, jafnvel þótt Hezbollah hafi annars stutt mótmælendur og uppreisnarmenn í Egyptalandi, Túnis, Líbíu og Barein. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×