Lífið

Byggja á popp-kúltúr í sápuóperustíl

Nýútskrifuð Sýning Nönnu og félaga er byggð á popp-kúltúr og er í sápuóperustíl. fréttablaðið/ernir
Nýútskrifuð Sýning Nönnu og félaga er byggð á popp-kúltúr og er í sápuóperustíl. fréttablaðið/ernir
Nanna Gunnarsdóttir útskrifaðist nýlega úr Rose Bruford College of Theatre and Performance í London. Þar nam hún evrópsk leikhúsfræði. „Það er aðallega leiklist en við lærum einnig dálítið um leikstjórn, leikmyndagerð, leikhönnun og fleira sem tengist leikhúsi.“ Aðaláherslan er á nýsköpun og hópavinnu.

Á sunnudagskvöld býður Nanna Íslendingum að sjá útskriftarverk sitt úr skólanum. Það ber heitið „Þetta er Brad heimur“ eða á ensku „It‘s a Brad World“. Nanna segist byggja sýninguna á list popplistamannsins Roy Lichtensteins: „Ég skoða hvernig ég get fært listrænt ferli Lichtensteins yfir á leiksviðið og gert sýningu úr því. Ég notast meðal annars við skuggamyndir. Lichtenstein vann mikið upp úr því sem taldist til lélegrar listar í samfélaginu og það er það sem ég er búin að vera að gera; skoða lélega list,“ segir hún og hlær. „Sýningin er byggð á popp-kúltúr í sápuóperustíl.“

Titillinn er dálítið sérstakur en hann er einnig vísun í Lichtenstein og teiknimyndamálverk hans. „Næstum því alltaf þegar hann sýnir kvenpersónur í málverkum sínum sem eru voðalega kvenlegar og ósjálfbjarga, þá er alltaf talað um Brad. Hann er svona staðalímynd karlmannsins sem kemur og bjargar málunum,“ segir Nanna og hlær.

Leikararnir sem taka þátt í sýningunni á sunnudaginn eru hinir sömu og léku í verkinu úti í London. Auk þeirra verður einn heiðursgestur. „Já, hann kemur frá Kostaríka,“ segir Nanna og brosir. „Hann er mættur til landsins. Hann fer með stórt hlutverk í sýningunni en segir ekki mikið.“

Nanna hugsaði sýninguna fyrir vini og vandamenn sem höfðu ekki tækifæri til að sjá sýninguna úti í London og einnig fyrir hverja þá sem hafa áhuga á leiklist og nýsköpun í þeim geira. Aðeins ein sýning er á dagskrá á Íslandi en ef það verður mjög góð aðsókn segist hún geta bætt við aukasýningu sama kvöld. Leikararnir verða aftur á móti aðeins á landinu í fimm daga og því er tíminn naumur. Leiksýningin er um það bil hálftími í flutningi og Nanna vonast til að sjá sem flesta í Gaflaraleikhúsinu á sunnudaginn klukkan átta. halla@365.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.