Erlent

Vilja ekki að skattgreiðendur þurfi að borga brúsann

Jose Manuel Barroso og Angela Merkel Forseti framkvæmdastjórnar ESB og kanslari Þýskalands hafa haft margt að ræða undanfarið.
Jose Manuel Barroso og Angela Merkel Forseti framkvæmdastjórnar ESB og kanslari Þýskalands hafa haft margt að ræða undanfarið. Fréttablaðið/AP
Framkvæmdastjórn ESB kynnti í gær hugmyndir um samhæfðar aðgerðir sínar til bjargar bönkum í vanda. Taka þó ekki gildi fyrr en 2018. Drög að nýju bankabandalagi lögð fyrir leiðtogafund ESB í lok júlí.

„Við ætlum að rjúfa tengslin á milli bankakreppu og ríkisfjárlaga,“ sagði Michael Barnier, sem fer með innri markaðsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. „Við viljum ekki að skattgreiðendur þurfi að borga brúsann.“

Framkvæmdastjórnin kynnti í gær hugmyndir sínar um samhæfðar aðgerðir til bjargar bönkum sem lenda í fjárhagsvanda. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld fái miklu víðtækari heimildir til að grípa inn í áður en í óefni stefnir og taka hreinlega að sér stjórn banka ef þeim verður ekki viðbjargandi nema með stuðningi úr ríkissjóði.

Einnig er gert ráð fyrir að smærri bankar fái einfaldlega að fara á hausinn ef fall þeirra stofnar ekki bankakerfinu í heild í hættu, en hins vegar verði hluthafar og aðrir ótryggðir lánardrottnar banka að taka á sig hluta tapsins ef ríkið neyðist til að grípa inn í.

Drög framkvæmdastjórnarinnar að nýjum reglum verða rædd á næsta leiðtogafundi Evrópusambandsins, sem haldinn verður í lok mánaðarins.

Einnig þarf samþykki Evrópuþingsins, en jafnvel þótt bæði þingið og leiðtogaráðið samþykki þessar hugmyndir er ekki gert ráð fyrir að nýju reglurnar taki gildi fyrr en árið 2018.

Þær koma því ekki að gagni á næstunni við að ráða fram úr brýnum vanda ríkja á borð við Spán, þar sem bankakerfið er sagt vera að riða til falls þessa dagana.

Spænska stjórnin segir áhyggjur af bankakerfinu þar í landi þó vera óþarflega miklar. Að vísu séu þeir í alvarlegum vanda og fái ekki lengur lánsfé frá bönkum í öðrum Evrópulöndum, en Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur biðlað til leiðtoga Evrópusambandsins um aðstoð og hvetur að auki til þess að áformum um enn nánara fjárlagabandalag evruríkjanna verði hraðað.

Búist er við því að á leiðtogafundi ESB eftir hálfan mánuð verði einnig ræddar hugmyndir um svonefnt bankabandalag, sem væri partur af enn nánara fjárlagabandalagi en það sem leiðtogarnir samþykktu á fundi sínum fyrr í vor.

Framkvæmdastjórnin og Seðlabanki Evrópusambandsins eru þessa dagana að leggja drög að slíku bankabandalagi, sem fæli meðal annars í sér sameiginlegt fjármálaeftirlit og sameiginlegan innistæðutryggingasjóð.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×