Innlent

Eigum sameiginlega norðurslóðahagsmuni

Jean-Claude Gascard og Jean-Charles Pomerol eru hér á landi til að efla samvinnu í rannsóknum á norðurheimskautssvæðinu.
Jean-Claude Gascard og Jean-Charles Pomerol eru hér á landi til að efla samvinnu í rannsóknum á norðurheimskautssvæðinu. Fréttablaðið/GVA
Tveir franskir vísindamenn eru staddir hér á landi til að efla samvinnu í vísindarannsóknum á norðurheimskautssvæðinu. Segja Ísland og Frakkland geta boðið hvort öðru upp á margt á hinu mikilvæga sviði loftslagsrannsókna.

Töluverðir hagsmunir geta legið í auknu samstarfi Íslands og Frakklands í vísindarannsóknum á norðurslóð. Þetta segja frönsku vísindamennirnir Jean-Charles Pomerol og Jean-Claude Gascard, sem eru staddir hér á landi.

Tilgangur ferðarinnar er að efla tengsl milli vísindamanna í löndunum tveimur í gegnum samevrópsk rannsóknaverkefni.

„Þessi verkefni eru afar mikilvæg,“ segir Pomerol. „Þau einblína á norðurskautið og í því tilliti þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi Íslands. Sjáðu bara hvar það er á heimskortinu,“ bætir hann við og hlær.

Á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með frönskum starfsbróður sínum í vor var ákveðið að efla samstarf ríkjanna í rannsóknum á norðurslóð, en þó Frakkland eigi að sjálfsögðu ekki land að heimskautinu hafa loftslagsbreytingar í þessum heimshluta áhrif mjög víða.

Gascard, sem stýrði meðal annars Damocles-rannsóknarverkefninu á norðurheimskautinu á árunum 2005 til 2009, stýrir einnig Access-verkefninu sem hófst í fyrra. Bæði þessi verkefni rannsaka áhrif loftslagsbreytinga og eru styrkt af framkvæmdastjórn ESB.

„Við erum að rannsaka tengingar milli loftslagsbreytinga og þróunar á félagshagfræðilegum þáttum eins og fiskveiðum, hafflutningum og olíu- og gasvinnslu,“ segir Gascard og bætir því við að gagnkvæmir hagsmunir liggi í frekara rannsóknasamstarfi milli Íslands og Frakklands.

„Ísland er auðvitað land á norðurslóð og hér er mikil þekking á aðstæðum í þessum heimshluta. Ekki aðeins varðandi loftslagsmál, heldur líka áhrif sjávar á loftslagið og á efnahagsleg mál, sérstaklega fiskveiðar. Þannig er Ísland einstakt land og heimurinn getur notið góðs af sérþekkingu Íslendinga og íslenskra vísindamanna og þeirra gagna sem hér eru til.“

Á móti, segir Gascard, getur Frakkland boðið upp á margt fyrir íslenska vísindamenn, til dæmis aðstöðu og tæknilausnir eins og gervihnattaeftirlit hjá geimvísindastofnun Frakklands og veðurstofu sem hefur mikla reynslu af loftslagsrannsóknum.

Gascard og Pomerol fara til Akureyrar í dag þar sem þeir munu funda með forsvarsmönnum Háskólans á Akureyri.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×