Innlent

Umferðaröryggi má auka með því að fjölga merktum gangbrautum

Hvernig má bæta umferðaröryggi við gangbrautir?

Talsmaður Umferðarstofu segir gangbrautum sem merktar eru með hvítum röndum hafa fækkað nokkuð í Reykjavík síðustu ár. Fyrrum lögreglumaður segir slys hafa hlotist af. Borgaryfirvöld leggja áherslu á að draga úr ökuhraða með fjölgun hraðahindrana.

Merkingum við gangbrautir og hraðahindranir víða um borgina er ábótavant sem býður heim slysum. Þetta segir Gunnlaugur V. Snævarr, fyrrum lögregluþjónn, sem hefur komið að mörgum slysum síðustu ár sem hann segir að megi rekja til misræmis í umferðarmerkingum.

Í Safamýri, framan við Álftamýrarskóla, og á Háaleitisbraut eru til dæmis fjórar hraðahindranir, hið minnsta, sem bera það með sér að vera gangbrautir, eru meðal annars hellulagðar með tilliti til þess að þar fari gangandi vegfarendur um, en eru ekki merktar sem slíkar.

„Síðustu sex ár, sem ég hef sótt konuna mína í vinnu í Álftamýrarskóla, hef ég komið að þremur slysum í hverfinu þar sem ekið hefur verið á börn við hraðahindrun,“ segir Gunnlaugur. „Það finnst mér einfaldlega of mikið, þrátt fyrir að ég sé ýmsu vanur frá mínum starfsferli. Þetta sama á við um marga aðra skóla og mjög oft munar bara sekúndubroti að illa fari.“

Gunnlaugur bætir því við að fleiri dæmi um misræmi í umferðarmerkingum megi finna í hverfinu, auk þess sem margir vegfarendur virði að vettugi merkingar. Meðal annars aki margir foreldrar barna í Álftamýrarskóla gegn einstefnu á bílastæði skólans sem skapi mikla ringulreið og hættu.

Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, segir í samtali við Fréttablaðið að ljóst sé að götumerkingum við gangbrautir, svokölluðum sebrabrautum, hafi fækkað.

„En ég hef ekki heyrt sannfærandi rök fyrir því að fækka þeim. Þær undirstrika forgang gangandi vegfarenda og eiga þar að auki að leiða gangandi umferð um hættuminni svæði. Ef Reykjavíkurborg hefur hins vegar haldbær rök og rannsóknir sem benda til þess að öryggi gangandi vegfaranda sé betur farið með því að sleppa sérstökum merkingum gangbrauta þá þarf að skoða það.“

Stefán Agnar Finnson, yfirverkfræðingur hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Fréttablaðið að hann telji sebrabrautum ekki hafa fækkað, heldur hafi ekki verið bætt við.

„Við höfum fjölgað hraðahindrunum við skóla en þær eru ekki alltaf merktar með röndum. Þær hafa verið taldar geta veitt falskt öryggi þar sem gangandi fara út á götuna og treysta á að ökumenn stoppi, sem gerist ekki alltaf.“

Stefán segir að annað geti mögulega mælt með sebrabrautum, til að mynda geti þær verið til hægðarauka fyrir sjónskerta.

„Þessi umræða kemur alltaf upp öðru hvoru, en hingað til höfum við litið svo á að það sem skili bestum árangri sé að draga úr hraða með upphækkunum.“

Stefán segir áætlanir ekki gera ráð fyrir fjölgun sebrabrauta en málið sé alltaf í skoðun.

thorgils@frettabladid.is

Fjöldi barna gengur yfir Safamýri á þessari hraðahindrun sem ekki er gangbraut. Börnin á myndinni gættu vel að sér áður en þau fóru yfir, en oft hefur litlu munað að illa fari við slíkar aðstæður.Fréttablaðið/Pjetur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×