Innlent

Ylurinn smýgur inn í moldina

Arnar setti niður túlípanalauka í fyrrahaust til að hafa eitthvað fallegt fyrir augunum þegar hann er að puða í garðinum á vorkvöldum.
Arnar setti niður túlípanalauka í fyrrahaust til að hafa eitthvað fallegt fyrir augunum þegar hann er að puða í garðinum á vorkvöldum. Fréttablaðið/Hag
Sumir leggja meiri vinnu í matjurtagarða sína en aðrir. Arnar Tómasson hárgreiðslumeistari á Salon Reykjavík er einn þeirra. Hann hefur smíðað volduga viðarkassa til að bæta ræktunarskilyrðin.



Arnar er í vorverkum. Forræktar plöntur heima en segir ekki kominn tíma á að setja þær út. Hann kveðst hafa erft ræktunaráhugann frá henni ömmu sinni, Þóru Sandholt. „Amma var með græna fingur og mikil blómakona," segir hann.

„Ég er aðallega í matjurtum en sting samt alltaf blómlaukum niður í beðin á haustin. Þeir koma upp snemma og þá hef ég eitthvað fallegt fyrir augunum á vorin meðan ég er að puða í garðinum. Þegar maður er með pínulitlar plöntur í höndunum efast maður ósjálfrátt um að nokkuð verði úr þeim en með eitthvert undur fyrir augunum er auðveldara að trúa því."

Plássið nýtist betur
Arnar kann að beita hamri og sög ekki síður en hárklippigræjunum.
Arnar er í garðlandinu sínu, vopnaður hamri og kvísl. Hann er að leggja lokahönd á viðarramma úr mótatimbri í kring um upphækkuð moldarbeð. Kann greinilega víðar til verka en á hársnyrtistofunni. Hann segir smíði kassanna ekki hafa tekið langan tíma. „Við vorum tveir sem gerðum þetta saman. Smiðurinn átti sögina og aðalvinnan tók svona fjóra tíma. Við grófum nokkra búta niður meðfram beðunum og negldum borðin utan á þá. Það má auðvitað nota hvaða timbur sem er, ég veit um konu sem hirti spýtur sem átti að henda og bjó til svona kassa úr þeim en ég keypti nýjan mótavið af því ég þekki engan í kringum mig sem er að byggja."

En hvert er gildi svona kassa fyrir ræktunina?

„Í fyrsta lagi nýtist plássið betur. Það er hægt að vera með plöntur alveg út í horn á kössunum en í venjulegu, upphrúguðu moldarbeði fer alltaf dálítið pláss til spillis í brúnunum. Ég get kannski sett fimm kálhausa í hverja röð, í staðinn fyrir þrjá. Með því að vera með svona mikla upphækkun þá er ég líka að hita beðið upp, sem þýðir meiri uppskeru og fyrr. Ylurinn smýgur gegnum trékassann og inn í moldina."

Þegar stungið er upp á að mála kassana svarta til að þeir dragi í sig enn meiri varma hristir Arnar höfuðið efablandinn. „Það gæti orðið of mikill hiti og þurrkur. Svo er þetta líka spurning um kemísk efni í málningunni. Ég yrði að velja lífræna málningu því ég er bara með lífræna ræktun."

Jafnast á við gott jóga
Kalk, skófla og þaramjöl er meðal þess sem gott er að hafa við höndina.
Þetta er fjórða vorið sem Arnar ver tómstundum sínum í garðinum því ræktunarbakterían gerði fyrst vart við sig eftir hrun.

„Það var Lilja vinkona mín sem hvatti mig til að prófa að rækta – mér fannst það ólíkleg hugmynd fyrst. En í þeirri atburðarás sem var í kringum hrunið, allt þetta ofbeldi á Austurvelli og óróleikann í samfélaginu, þurfti ég að finna mér einhvern stað þar sem ég fengi frið og ró í sálinni og ég fann hann í móður jörð. Að rækta garðinn sinn og róta í mold er að rækta sálina sína og jafnast á við gott jóga." Er það ekki líka hagstætt fyrir budduna? skýtur blaðamaður að. „Jú, en það er það minnsta. Fyrir sálina er það svo afskaplega heilbrigt að sjá eitthvað vaxa. Þetta litla kraftaverk að sjá pínulítið fræ verða að einhverju er svo stórkostlegt."

Skyldi allt hafa lukkast sem Arnar hefur prófað að rækta til þessa? „Já, að mestu, en reyndar er það ekki aðalatriðið, heldur að eiga þessar tómstundir. Svo er auðvitað skemmtilegt að slást við nýjar tegundir og gera tilraunir."

Þegar forvitnast er um hvenær hann fari að planta í beðin svarar Arnar: „Bara þegar sumarið kemur, einhvern næstu daga. Ég byrjaði að forrækta í febrúar, fór um áramótin í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði, sótti tíma þar einu sinni í viku í ræktun lífrænna matjurta hjá honum Ingólfi Guðnasyni í Engi. Þá lærði ég margt og nú eru tilraunir í gangi."

Vill nýta blokkarlóðirnarÍ stað þess að fá sér búfjáráburð í garðinn kveðst Arnar nota sveppamassa og fiskimjöl. „Síðan þarf að mæla pH-gildi moldarinnar og stilla það eftir þeim tegundum sem á að rækta í henni. Það skiptir miklu máli. Ef hækka þarf sýrustigið þá setur maður kalk í moldina, en til að fá sýruna niður þarf að bæta brennisteini við hana. Þetta fæst allt í gróðrarstöðvum nema fiskimjölið. Maður þarf að beita klíkuskap til að nálgast það. Þekkja mann sem þekkir mann sem…"

Arnar leigir garðland af Garðyrkjufélagi Íslands. Hann bendir á að sveitarfélögin leigi líka út reiti. „Mér finnst það ætti að vera boðið upp grenndargarða í hverju einasta hverfi og gefa fólki kost á þeirri hamingju sem ræktuninni fylgir," segir Arnar.

„Mín hugmynd er reyndar sú að allir sem búa í fjölbýlishúsum ættu að geta verið með svona reiti á lóðunum sínum, sérstaklega þessum stóru lóðum við blokkirnar sem voru byggðar í kringum 1960 til 1970, þar sem enginn má leika sér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×