Lífið

Sviðið stækkað fyrir Eurovision

Á annað hundrað manns koma nálægt úrslitum Eurovision í Eldborgarsalnum á laugardaginn.
Á annað hundrað manns koma nálægt úrslitum Eurovision í Eldborgarsalnum á laugardaginn. fréttablaði/valli
Á annað hundrað manns koma nálægt úrslitum Eurovision á einn eða annan hátt í Eldborgarsal Hörpunnar næsta laugardag.

Um fjörutíu tæknimenn frá Sjónvarpinu verða í salnum, keppendurnir og fólkið í kringum þá verða um áttatíu talsins, auk þess sem starfsfólk Hörpunnar og fleiri starfsmenn Sjónvarpsins, þar á meðal kynnar, verða í salnum.

Samkvæmt Elísabetu Lindu Þórðardóttur, sem kemur að framkvæmd keppninnar, verða áhorfendurnir um eitt þúsund talsins, sem er það mesta sem verið hefur í úrslitum Eurovision hérlendis. Miðar á keppnina seldust upp á fimm mínútum í þarsíðustu viku. „Það fóru hátt í eitt þúsund miðar í sölu og þeir hurfu einn, tveir og þrír,“ segir Elísabet Linda.

Einhverjir miðakaupendur kvörtuðu yfir því hversu mörg sæti virtust vera frátekin en að sögn Elísabetar Lindu voru þau ekki svo mörg. Helst hafi verið tekið frá fyrir keppendurna.

Eldborgarsalurinn tekur um 1.450 manns í sæti en hann nýtist ekki allur á laugardaginn. Sviðið verður stækkað og því var ekki hægt að selja miða í fremstu sætaraðirnar, auk þess sem annars staðar í salnum þurfti að taka frá pláss fyrir myndavélar Sjónvarpsins, sem verða alls fjórtán talsins.

Sjö lög keppa til úrslita í Eurovision og fer sigurvegarinn til Aserbaídsjan í maí. Auk keppenda munu Páll Óskar og Hera Björk taka lagið í Eldborg. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×