Erlent

Stundarbjartsýni hafnaði í blindgötu

Leiðtogar íhaldsmanna og sósíaldemókrata virtust bjartsýnir um stund.
Leiðtogar íhaldsmanna og sósíaldemókrata virtust bjartsýnir um stund. nordicphotos/AFP
Möguleikar á stjórnarmyndun á Grikklandi vart í sjónmáli. Um stund virtist í gær stefna í þriggja flokka samstarf hægri manna, sósíaldemókrata og lítils vinstriflokks. Venizelos hefur frest þangað til í dag til að ljúka stjórnarmyndun.

Grískir stjórnmálamenn virtust um tíma í gær nokkuð bjartsýnir á að Evangelos Venizelos, leiðtoga sósíalistaflokksins Pasok, tækist að berja saman meirihlutastjórn – eða í það minnsta minnihlutastjórn Pasok og Lýðræðislega vinstriflokksins, sem íhaldsflokkurinn Nýtt lýðræði myndi verja falli.

Antonis Samaras, leiðtogi Nýs lýðræðis, sagði hugmyndir Pasoks og Lýðræðislega vinstriflokksins vera mjög áþekkar hugmyndum hægri manna.

„Við erum tilbúnir til að styðja þessa ríkisstjórn eða verja minnihlutastjórn falli," sagði Samaras.

Fotis Kouvelis, leiðtogi Lýðræðislega vinstriflokksins, tók hins vegar skýrt fram að hann hefði engan áhuga á að sitja í ríkisstjórn með sósíaldemókrötum og íhaldsmönnum, enda voru það þessir tveir flokkar sem sömdu við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um þær ströngu aðhaldsaðgerðir sem Grikkir eru að kikna undan.

Samaras gagnrýndi hins vegar harðlega Syrizas, bandalag róttækra vinstriflokka, sem varð næststærsta aflið á þjóðþingi landsins í kosningunum um síðustu helgi.

„Þeir hafa enga hugmynd um það hvernig bankakerfið virkar," sagði Samaras og sagði að „ábyrgðarleysi og lýðskrum" flokksins sé að stofna aðild Grikklands að myntbandalagi Evrópusambandsins í voða.

Alexis Tsipras, leiðtogi bandalags róttæku vinstriflokkanna, hafði ekki erindi sem erfiði þegar hann reyndi að mynda meirihlutastjórn fyrr í vikunni.

Á miðvikudag skrifaði hann leiðtogum Evrópusambandsins bréf þar sem hann sagði kosningaúrslitin í Grikklandi um síðustu helgi hafa kippt fótunum undan björgunarpakkanum, sem fyrri stjórn samþykkti með skilmálum um strangar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Hann sagði síðan niðurskurðinn ekki hafa leyst vandamál Grikkja. Þvert á móti sé hann að eyðileggja efnahag landsins svo nú stefni í neyðarástand. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, segir Grikki hins vegar ekki komast hjá því að framfylgja aðhaldsáformum. „Ef einhver segir Grikkjum eitthvað annað þá er hann ekki að sinna skyldu sinni við grísku þjóðina."

Venizelos þarf að ljúka stjórnarmyndun í dag, að öðrum kosti verður Karolos Papoulias, forseti landsins, að gera tilraun til að mynda þjóðstjórn. Gangi það ekki verður boðað til nýrra kosninga strax í júní. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×