Innlent

Stuðningur við landbúnað er tvöfalt hærri hér á landi

Samkvæmt spá OECD var heildarstuðningur við landbúnað á Íslandi 17,3 milljarðar árið 2011.
Samkvæmt spá OECD var heildarstuðningur við landbúnað á Íslandi 17,3 milljarðar árið 2011.
Ísland greiðir fimmta hæsta stuðning við landbúnað af OECD-löndunum. Noregur trónir á toppnum og Sviss, Kórea og Japan greiða öll hærri stuðning en Ísland. Þetta kemur fram í skýrslu OECD.

Samkvæmt spá skýrsluhöfunda nemur árlegur heildarstuðningur ríkisins við landbúnað á árunum 2009 til 2011 16,7 milljörðum króna, eða 1,1% af vergri þjóðarframleiðslu. Er þar átt við beingreiðslur og innflutningsvernd. Spá OECD fyrir árið 2011 gerir ráð fyrir 17,3 milljarða króna stuðningi við landbúnað.

Dregið hefur úr stuðningi við bændur um þrjátíu prósentustig á milli áranna 1986-88 og 2009-11. Hins vegar hefur lítil stefnubreyting verið í málaflokknum á þessum árum, að sögn skýrsluhöfunda.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir tölurnar fyrir 2011 gefa nokkuð rétta mynd af stöðunni, en síðustu ár hafi myndin verið brengluð vegna gengisskekkju. Ljóst sé að stuðningur við landbúnað verði alltaf hærri hér en víða annars staðar. „Hann verður alltaf hár hér af því að við erum með svo fábreyttan landbúnað. Önnur ríki geta smurt þessu út á fleiri búgreinar.“

Haraldur bendir á að Ísland nýti ekki heimildir sínar varðandi tollvernd að fullu. Heildarheimildir séu á bilinu 20 til 24 milljarðar, en um sex milljarðar séu nýttir fyrir árið 2011. „Við höfum haft af því áhyggjur að tollvernd sé að rýrna, því ef tollvernd rýrnar þá rýrna kjör bændanna.“

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að stofnunin hafi ekki lagt mat á heildarstuðning við landbúnað. Hún hafi lagt áherslu á að stuðningi sé hagað þannig að hvatar samkeppninnar séu nýttir til að styrkja greinina og auðvelda nýjum aðilum að vaxa og dafna á markaðnum. Á það skorti.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×