Skoðun

Glerhýsi Þorsteins Pálssonar?

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Í vikulegum stjórnmálaskýringum Þorsteins Pálssonar nýtir hann hvert tækifæri til að gera lítið úr störfum forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, jafnvel þegar hann er sammála henni efnislega, sbr. grein sl. laugardag um gjaldmiðlamál. Þessi árátta minnir á stöðugar árásir Staksteina Morgunblaðsins á Ingibjörgu Sólrúnu. Stefán Benediktsson taldi og flokkaði Staksteinaskrif eins ársins: Enginn stjórnmálamaður komst í námunda við Ingibjörgu og miklu munaði.

Ég fullyrði að Jóhanna og hennar ríkisstjórn hafa komið fleiri umbótamálum á dagskrá og að verulegu leyti í gegn, en nokkur ríkisstjórn, frá því ég fór að fylgjast með stjórnmálum. Ég nefni þau sem mér eru mikilvægust: Breytt skatta- og bótakerfi hefur snúið við ójafnaðarþróun sem Þorsteinn og hans flokksbræður stuðluðu að frá árinu 1996. Samt hafa skattar lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu.

Ríkisstofnunum hefur fækkað um 28 og ráðuneyti verða átta í stað tólf. Það síðarnefnda var ávallt talið ómögulegt því koma þurfti „verðugum" stjórnmálamönnum í ráðherrastóla og stuttbuxnabræður Þorsteins settu Íslandsmet í útþenslu ríkisumsvifa. Ný lög koma nú í veg fyrir pólitískar ráðningar dómara, sem Þorsteinn og hans flokksbræður stunduðu í áratugi. Öðrum pólitískum ráðningum, sem Þorsteinn og félagar stunduðu einnig grimmt, var sagt stríð á hendur. Sjálfur fékk Þorsteinn sendiherrastöðu. Loks hillir í uppstokkun fiskveiðistjórnunarkerfisins, sem Þorsteinn og hans flokksbræður hafa staðið dyggan vörð um, þó hrikaleg eignatilfærsla og einokunartilhneiging gjafakvótakerfisins yrði ljós. Við sölu ríkiseigna mun ríkisstjórn Jóhönnu ekki nota flokkspólitískar úthlutunarreglur Þorsteins og flokksfélaga hans. Ég sat í einkavæðingarnefnd þegar Þorsteinn, þá sjávarútvegsráðherra, seldi fram hjá nefndinni stórfyrirtækið SR mjöl til pólitískra vildarvina, í stað hæstbjóðanda.

Það er vandasamt að vera forsætisráðherra og formaður í stórum stjórnmálaflokki. Það hefur Þorsteinn sjálfur reynt. Jóhönnu hefur tekist að halda ríkisstjórn saman á erfiðustu tímum lýðveldisins. Sú eina sem Þorsteinn veitti forystu stóð í eitt ár. Jóhönnu hefur tekist að halda Samfylkingunni saman þrátt fyrir yfirþyrmandi verkefni, reiði og tortryggni í garð stjórnmálamanna. Í formennskutíð Þorsteins klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn og fékk í næstu kosningum þar á eftir, undir hans forystu einhverja lélegustu útkomu í sögu sinni. Er verið að kasta steinum úr glerhúsi?




Skoðun

Sjá meira


×