Innlent

Ferðaþjónustan fær 0,5% af rannsóknafé

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar varar við því hvað lítið er vitað um greinina og það standi vexti hennar fyrir þrifum.fréttablaðið/gva
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar varar við því hvað lítið er vitað um greinina og það standi vexti hennar fyrir þrifum.fréttablaðið/gva
Ferðaþjónustan í landinu fær í sinn hlut 0,5% af opinberu rannsóknafé atvinnuveganna. Lítil þekking á ferðaþjónustunni og fátæklegar grunnrannsóknir eru greininni hættulegar. Á sama tíma eru gjaldeyristekjur greinarinnar árið 2011 áætlaðar um eða yfir 180 milljarðar króna.

Þetta kom fram í erindi sem Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, flutti á aðalfundi samtakanna síðastliðinn föstudag. Árni sagði að í samhengi við tekjur greinarinnar væri það fé sem rennur til rannsókna í greininni „skammarlega lítið“.

Gat hann þess þó að bætt hafi verið við fjárframlög til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RF) og eins hafi Hagstofan fengið aukið fé til að taka saman tölfræði ferðaþjónustunnar.

Þetta aukna framlag færi rannsóknaféð til greinarinnar ekki upp fyrir eitt prósent af heildarfé til rannsókna innan atvinnuveganna.

„Stjórnvöld þurfa hér að taka af skarið og stokka spilin upp á nýtt, ferðaþjónustan verður að njóta sannmælis á við aðrar atvinnugreinar,“ sagði Árni.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, segir að tölfræðin sem hér um ræðir sé tölur iðnaðarráðuneytisins, sem birtar voru eftir fyrirspurn á Alþingi fyrir nokkru. Hún segir dæmin fjölmörg um rannsóknir sem þarf að vinna strax, til dæmis væri gagnlegt að unnar væru markaðsgreiningar á því hvaða hópar ferðamanna það eru sem ferðaþjónustan á að reyna að ná til.

„Til hvaða viðskiptavina eigum við að höfða fyrir þessa eða hina vöruna sem við höfum að bjóða,“ segir Erna og bætir því við að í landinu sé nóg af fólki með sérþekkingu til að vinna að þessum rannsóknum.

Í gögnum sem Ferðamálastofa hefur unnið, og voru notuð við gerð ferðamálaáætlunar fyrir árin 2011–2020, koma sömu tölur fram. Til rannsókna í iðnaði árið 2007 fóru tæp 55% af heildarframlögum hins opinbera til atvinnuvegarannsókna. Til rannsókna í fiskveiðum og landbúnaði fóru 34,9% framlaga. Alls voru rannsóknir í þessum greinum styrktar fyrir um 11,2 milljarða króna. Rannsóknir á orkuframleiðslu og dreifingu fengu 1,3 milljarða eða tæp 10% af því rannsóknafé sem var í boði.

Ferðaþjónustan fékk 0,5% eða um 70 milljónir króna og hafði þá bætt við sig 0,1% frá árinu 2005.

Í erindi Árna kom fram að tekjur ferðaþjónustunnar eru um fimmtungur af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar. Árið 2009 voru gjaldeyristekjurnar um 158 milljarðar króna en í fyrra eru þær taldar hafa numið um 180 milljörðum króna.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×