Innlent

Kynjabundinn launamunur óþolandi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Velferðarráðherra segir óþolandi að launajafnrétti kynjanna hafi enn ekki verið náð á Íslandi. Hann kynnti í dag aðgerðaáætlun til að sporna við vandanum.
Velferðarráðherra segir óþolandi að launajafnrétti kynjanna hafi enn ekki verið náð á Íslandi. Hann kynnti í dag aðgerðaáætlun til að sporna við vandanum. MYND / Sigurjón
Velferðarráðherra segir óþolandi að launajafnrétti kynjanna hafi enn ekki verið náð á Íslandi. Hann kynnti í dag aðgerðaáætlun til að sporna við vandanum.

Í dag, á kvennafrídeginum, undirrituðu fulltrúar stjórnvalda og aðilar vinnumarkaðarins viljayfirlýsingu um að komið verði á aðgerðarhópi þessara aðila til að vinna að launajafnrétti kynjanna. Markmið samstarfsins er að eyða kynbundnum launamun.

Ísland er í efsta sæti árlegrar úttektar Alþjóðaefnahagsráðsins á jafnrétti kynjanna, sem birt var í dag. Enn hefur þó ekki náðst launajafnrétti.

„Það er óþolandi. Þetta er búið að vera markmiðið í mörg ár en miðar allt of hægt," segir Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Á málþingi í dag sem haldið var undir yfirskriftinni Þekking í þágu jafnréttis, kynnti velferðarráðherra áætlun stjórnvalda til að stuðla að launajafnrétti. Meðal verkefna er stofnun aðgerðahópsins, rannsókn á nýtingu á fæðingarorlofi og stöðu kynjanna á vinnumarkaði að fæðingarorlofi loknu, tilraunaverkefni um innleiðingu á jafnlaunastaðli og fræðsla til vinnuveitenda til að auðvelda samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

Guðbjartur segir Íslendinga ekki mega sofna á verðinum þrátt fyrir góðan árangur í mælingum á jafnrétti.

„Við getum verið auðvitað stolt af því en það þýðir ekkert að halla sér afturábak og halda að við séum búin að ná þessu varanlega. þetta er stöðug vinna og við megum aldrei slaka á," segir Guðbjartur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×