Fótbolti

Balotelli beint útaf og í flug

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
MYND: NORDIC PHOTOS \ GETTY
Mario Balotelli var allt annað en sáttur þegar Roberto Mancini knattspyrnustjóri Manchester City skipti honum útaf eftir 55 mínútur í sigri Englandsmeistaranna á Sunderland í gær. Balotelli fann sér næsta lausa flug til Ítalíu og var fljótur um borð.

Hinn 22 ára gamli Balotelli hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar á vellinum í upphafi leiktíðar á Englandi en var engu að síður ósáttur við stjórann sinn þegar hann var tekinn útaf í gær. Innan örfárra klukkustunda var hann kominn upp í flugvél hjá lágfargjalda flugfélagi á Englandi og á leið heim til Ítalíu.

Fregnir herma að forráðamenn Manchester City telji að leikmaðurinn sé meiri truflun en gagn og vilja að Mancini setji Balotelli á sölulista þegar opnað verður fyrir viðskipti með leikmenn í janúar.

Balotelli var ósáttur við meðferðina sem hann fékk hjá varnarmönnum Sunderland í gær og þegar honum var skipt útaf gekk hann rakleitt framhjá varamannaskýlinu og inn í klefa án þess að ræða við kóng né prest.

David Platt þjálfari hjá City segir Balotelli ekki hafa fengið leyfi til að fara beint inn í klefa.

„Ég veit ekki af hverju hann fór beint inn í klefa. Ég er ánægður með Mario en hann gæti gert betur," sagði Platt eftir leikinn gegn Sunderland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×