Innlent

Sigurjón með 10 mál á sér

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurjón verst á mörgum vígstöðvum.
Sigurjón verst á mörgum vígstöðvum.
Sigurjón Árnason er með tíu mál á sér, sagði Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður hans, í fyrirtöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þar var tekið fyrir mál sem slitastjórn Landsbankans hefur höfðað gegn Sigurjóni og Halldóri J. Kristjánssyni en bankinn krefst 37 milljarða króna frá hvorum. Hann hefur líka stefnt Elínu Sigfúsdóttur, sem var framkvæmdastjóri hjá bankanum fyrir hrun, en síðan bankastjóri um skeið. Auk þeirra þriggja hefur bankinn stefnt nokkrum félögum sem bankinn var í viðskiptum við.

Sigurður nefndi þennan málafjölda vegna þess að Viðar Lúðvíksson, lögmaður félaganna, krafðist þess að málum slitastjórnarinnar yrði frestað þangað til að rannsókn sérstaks saksóknara á málum tengdum Landsbankanum lyki. Þegar Vísir óskaði eftir frekari upplýsingum um málið að fyrirtöku lokinni sagðist Sigurður ekki geta skýrt það að svo stöddu. Fyrir dómnum sagði hann að Sigurjón mætti reglulega í skýrslutöku til sérstaks saksóknara vegna þeirra mála sem eru til rannsóknar þar.

Viðar sagði að sex mál sem sérstakur saksóknari væri með til rannsóknar og tengdust Landsbankanum gætu haft efnisleg áhrif á mál slitastjórnarinnar gegn þremenningunum og félögunum. Þá kom fram að sérstakur saksóknari væri með til rannsóknar meinta markaðsmisnotkun sem grunur leikur á að hafi átt sér stað í Landsbankanum á árunum 2003-2008.

Skúli Magnússon dómari útilokaði ekki að við úrlausn þessa máls, sem tekið var fyrir í morgun, myndi hann sjálfur óska eftir gögnum frá sérstökum saksóknara




Fleiri fréttir

Sjá meira


×