Innlent

Framhaldsskólakennurum með réttindi fjölgar stöðugt

Alls höfðu 86,3% starfsmanna við kennslu í framhaldsskólum í nóvember í fyrra kennsluréttindi. Hlutfall kennara með kennsluréttindi hefur ekki verið svona hátt frá því að gagnasöfnun Hagstofunnar um starfsfólk í framhaldsskólum hófst fyrir rúmlega áratug.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að hlutfall réttindakennara hefur hækkað um 13,7 prósentustig á síðasta áratug, úr 72,6% skólaárið 2001-2002. Með réttindakennara er átt við þann starfsmann við kennslu sem hefur leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu til að kalla sig framhaldsskólakennara.

Mun hærra hlutfall kvenkennara en karlkennara hefur kennsluréttindi. Öll árin sem gagnasöfnun Hagstofu um starfsmenn framhaldsskóla hefur staðið hafa hlutfallslega fleiri konur haft kennsluréttindi en karlar. Skólaárið höfðu 90,8% kvenkennara réttindi á móti 81,4% karlkennara. Hlutfall kvenkennara með réttindi hækkaði um þrjú prósentustig frá árinu á undan á meðan hlutfall karlkennara með kennsluréttindi lækkaði um 0,3 prósentustig.

Framhaldsskólar utan höfuðborgarsvæðisins höfðu löngum hlutfallslega færri réttindakennara innan sinna vébanda en skólar á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2006 snerist þetta við en þá voru hlutfallslega fleiri réttindakennarar starfandi í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember 2008 voru lítið eitt fleiri réttindakennarar á landsbyggðinni en síðan þá hefur réttindakennurum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað mun meira en á landsbyggðinni.

Í nóvember í fyrra höfðu 87,8% kennara á höfuðborgarsvæðinu kennsluréttindi en 84,1% kennara á landsbyggðinni utan höfuðborgarsvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×