Skoðun

Dómstólar skauta fram hjá verðtryggðum húsnæðisafleiðum

Guðmundur Franklín Jónsson skrifar
Í fyrri tveimur greinum mínum í Fréttablaðinu um verðtryggð húsnæðislán og að þau séu afleiður og þ.a.l. ólögmæt söluvara fjármálastofnana síðan 1. nóv 2007 þegar við tókum upp MiFID reglur ESB, má bæta við að 1. júlí 2001 þegar Vaxtalög nr. 38/2000 tóku gildi segir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, 13. gr.: ?Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað. Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.? Þarna kemur skýrt fram að afleiðusamningar eru undanþegnir þessum lögum, en hvergi í lögunum er hægt að finna útskýringar á því hvað felst í afleiðusamningi eða greining á honum.

Almenningur blekkturVerðtryggð húsnæðislán eru gríðarlega flókin afleiða og vita fjármálastofnanir lítið um þróun lánsins nema það að lánið hækkar. Má halda því fram að sameinast hafi verið um að blekkja almenning svipað og í gengislánunum sem Hæstiréttur hefur nú þegar dæmt ólögleg. Í þeim dómi reyndi ekki á MiFID reglur um neytendavernd almennings, en gengisbundin krónulán eru skýrt dæmi um afleiður, sem almenningur nýtur verndar gegn. Hið sama ætti þá að gilda um verðtryggð húsnæðislán. Verðtryggð húsnæðislán eru ekkert annað en afleiðusamningar vegna þess að hækkun lánanna leiðir af hækkunum fjölda annarra afleiddra þátta t.d. skatta, eldneytisverðs, launa, hrávöru, gengi krónunnar o.s.frv.

Reglur og lög eru ekki til skrautsAlmennt þarf að sýna fram á það með skýrum hætti að MiFiD reglurnar sem voru innleiddar í íslenskan rétt séu ekki til skrauts og hafi efnislegt gildi. Hvað þetta snertir má vísa til orða framkvæmdastjóra innri markaðarins hjá ESB, Charlie McCreevy : ?Reglurnar sem við höfum búið til eru grundvallarreglur – ekki æfing þar sem menn krossa í reitinn sem þeir telja besta kostinn.?

Bann við ósanngjörnum skilmálum í neytendasamningumMat á verðtryggðum húsnæðislánum verður að fara fram í ljósi MiFID. Segir á Evrópuvefnum: ?Evrópsk lög um neytendalán tilgreina nauðsyn þess að neytendum séu veittar allar upplýsingar sem máli skipta og að þeir skilji heildarumfang þeirra fjárhagslegu skuldbindinga sem lánssamningar fela í sér.? Segir þar einnig : ?Tilskipun ESB um neytendasamninga (93/13/EEB) leggur þannig almennt bann við ósanngjörnum skilmálum í neytendasamningum, það er að segja skilmálum sem ekki hefur verið samið um sérstaklega, sem stríða gegn góðum viðskiptaháttum og raska til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytendum í óhag. Tilskipun ESB um ósanngjarna viðskiptahætti kveður á um tilteknar skyldur viðskiptamanna til að upplýsa neytendur, sem eru í góðri trú, um allar fjárhagslegar skyldur sínar...?

Verðtrygging húsnæðislána stangast á við evrópsk neytendalögÁ Íslandi endurspegla greiðsluáætlanir ekki raunveruleikann, sér í lagi verðbólguskotið fyrir og eftir hrun. Með sanni má segja að fjármálastofnanir hafi raskað hegðun neytenda með því að gera lítið úr langtímaáhættu vegna verðbólgu. Verðtrygging húsnæðislána stangast á við grundvallarreglur evrópskra neytendalaga sem banna misbeitingarákvæði sem raska jafnvægi samningsaðila neytanda í óhag. Hvort verðtryggð lán séu hugsanlega ólögleg frá 2001 eða 2007 verða dómstólar að skera úr um, en eitt er víst, að þetta verður að leiðrétta.




Skoðun

Sjá meira


×