Innlent

4 milljarða halli á rekstri ríkissjóðs

Ríkissjóður verður rekinn með 3,7 milljarða króna halla á árinu 2013 samkvæmt fjárlögum sem Alþingi samþykkti á fimmtudag. Hallinn nemur 0,2 prósentum af vergri landsframleiðslu (VLF). Það er mikil breyting, en árið 2008 nam hallinn 14,6 prósentum af VLF og 9,3 prósentum árið 2009. Heildarútgjöld ársins 2013 nema 579,7 milljörðum króna.

Helstu breytingar sem þingið gerði á frumvarpinu felast í 13 milljarða króna framlagi til Íbúðalánasjóðs. Framlagið er hins vegar ekki gjaldfært, en kallar á hækkun vaxtagjalda um 585 milljónir króna á næsta ári.

Meirihluti fjárlaganefndar gerði breytingartillögur á frumvarpinu sem nema 3,9 milljörðum króna til hækkunar. Þar vógu þyngst breytingar á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar: 800 milljónir til byggingar húss íslenskra fræða og 400 milljónir til uppsetningar á sýningu Náttúruminjasafns Íslands.

Samkvæmt frumvarpinu nema skatttekjur ríkissjóðs á næsta ári 513 milljörðum króna. Sú tala gæti breyst þar sem tekjuhlið fjárlaganna ákvarðast í bandorminum, frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem samþykkja á í dag.

Sala eigna á að skila 4,6 milljörðum króna til ríkisins. Á meðal þeirra eigna eru land ríkisins á Keldum, Keldnaholti og við Úlfarsá. Rætt var við lífeyrissjóðina fyrr á árinu um að þeir keyptu landið en frá því var fallið þar sem Reykjavíkurborg á mikið af lausum lóðum í Úlfarsárdal. Því benti allt til þess að uppbygging í Keldnaholti tefðist um fimm til fimmtán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×