Innlent

Ekkert hús heilt eftir fellibylinn

Hrunin Ekkert hús stendur eftir í þeim bæjum sem verst urðu úti í fellibylnum sem gekk yfir 4. desember.
Nordicphotos/AFP
Hrunin Ekkert hús stendur eftir í þeim bæjum sem verst urðu úti í fellibylnum sem gekk yfir 4. desember. Nordicphotos/AFP
„Ástandið er verst á austurströndinni. Hér eru þrír bæir og í þeim sem fór verst er ekkert heilt hús eftir,“ segir Lárus Steindór Björnsson, íslenskur björgunarsveitarmaður, sem hefur verið við störf á skaðasvæðum fellibyljarins Bopha á Filippseyjum undanfarna daga.

„Þau hús sem enn eru uppistandandi eru ýmist þaklaus eða hálfhrunin og ástandið mjög slæmt. Hjálparstofnanir horfa fram á að þurfa að vera hér í tvö ár til að aðstoða við uppbyggingu,“ segir Lárus. Fellibylurinn gekk yfir Filippseyjar 4. desember síðastliðinn.

Hann kom til eyjarinnar Mindanao eftir þriggja daga ferðalag síðastliðinn sunnudag, og hefur unnið að því að koma fjarskiptamálum í lag á svæðinu. Alls er nú talið að um 1.000 hafi farist í fellibylnum, þar af um 900 á austari hluta eyjarinnar Mindanao.

„Mitt verkefni er að samræma fjarskipti milli hjálparsamtaka svo menn geti skipst á upplýsingum,“ segir Lárus. Allt samband við bæina á austurströndinni rofnaði í óveðrinu, og þó GSM-sambandi hafi verið komið á er enn ekkert netsamband.

„Það tefur alla aðstoð ef menn fá ekki upplýsingar um hvað vantar, og alla framvindu. Það skiptir gríðarlega miklu að koma þessum málum í lag til að það sé hægt að koma lífinu hjá fólkinu hér í samt lag aftur.“

Lárus leggur af stað heim í dag og reiknar með að lenda á Íslandi á Þorláksmessu.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×