Innlent

Allt að 30.000 tonn af síldinni drápust

svavar@frettabladid.is skrifar
Kolgrafafjörður í vikunni Fyrstu kenningar gerðu ráð fyrir að nokkur hundruð tonn hefðu drepist, en ljóst er að magnið er gífurlegt. fréttablaðið/valli
Kolgrafafjörður í vikunni Fyrstu kenningar gerðu ráð fyrir að nokkur hundruð tonn hefðu drepist, en ljóst er að magnið er gífurlegt. fréttablaðið/valli
Fyrstu niðurstöður Hafrannsóknastofnunar gera ráð fyrir að 25 til 30 þúsund tonn af íslensku sumargotssíldinni hafi drepist inni í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi fyrir rúmri viku. Súrefnisskortur er nú talinn aðalástæða síldardauðans og að hann hafi meðal annars komið til vegna þess gríðarlega magns af síld sem safnaðist fyrir í firðinum.

Hafrannsóknastofnunin fór til mælinga í firðinum þriðjudaginn 18. desember til að reyna að varpa ljósi á orsakir síldardauðans og leggja mat á magn dauðrar síldar í firðinum. Ástand sjávarins var kannað; hiti, selta og súrefni. Botn fjarðarins var skoðaður með neðansjávarmyndavélum. Þá voru fjörur gengnar og mat lagt á magn dauðrar síldar þar einnig.

Súrefnismettun í firðinum mældist mjög lág, reyndar lægri en áður hefur mælst í sjó við landið. Líklegt telur Hafró að þessi lækkun á styrk súrefnis stafi meðal annars af öndun síldar sem var í miklu magni innan brúarinnar yfir fjörðinn dagana áður en mælingarnar voru gerðar. Daginn sem síldin drapst er talið að á milli 250 til 300 þúsund tonn hafi verið í firðinum og tíu prósent hafi drepist.

Myndatökur á botni fjarðarins benda til, með tilliti til stærðar fjarðarins, að magn dauðrar síldar á svæðinu gæti verið 25-30 þúsund tonn. Það mat er þó háð óvissu, að sögn Hafró.

Enda þótt síldin sé nú komin af því svæði þar sem styrkur súrefnis var mjög lágur er mögulegt að það ástand vari áfram vegna rotnunar á dauðum fiski. Rotnunin getur viðhaldið lágu súrefnismagni í firðinum og því gæti áframhaldandi hætta verið til staðar á næstu mánuðum og misserum fari fiskur inn á það svæði í miklu magni.

Bergmálsmælingar á lifandi síld sýna að umtalsvert magn var af síld utan við brúna í Kolgrafafirði og virðist sem síldin hafi að mestu fært sig af svæðinu innan við brú. Alls mældust um 10 þúsund tonn innan brúar en utan við brú í firðinum mældust rúmlega 250 þúsund tonn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×