Innlent

"Ríkisstjórnin búin - ekki með tryggan meirihluta"

Skattalækkunartillögur stjórnarandstöðunnar á taubleyjum og smokkum og voru óvænt samþykktar á Alþingi í gær þvert á vilja ríkisstjórnarinnar. Hlé var gert á atkvæðagreiðslum þegar í ljós kom að ekki voru nægilegar margir stjórnarliðar í þinghúsinu. Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir þetta táknrænt fyrir stöðu ríkisstjórnarinnar sem hafi lengur meirihluta fyrir eigin tillögum.

Síðasta þingfundi fyrir jólafrí var slitið klukkan fimm mínútur yfir þrjú í nótt en þá hafði fundurinn staðið yfir í tæpar sautján klukkstundir.

Fjölmörg lagafrumvörp voru afgreidd þar á meðal bandormur ríkisstjórnarinnar, breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi, sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og barnalög.

Hlé var gert á atkvæðagreiðslum í nótt þegar í ljós kom að ekki voru nægilega margir stjórnarliðar í þinghúsinu til að styðja tillögur ríkisstjórnarinnar. Þrjár breytingartillögur stjórnarandstöðunnar voru því óvænt samþykktar - tillögur um skattalækkanir á taubleyjum og smokkum og þá taka barnalög gildi 1. janúar en ekki 1. júlí eins og frumvarp innanríkisráðherra gerði ráð fyrir.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingkona sjálfstæðismanna, segir það táknrænt fyrir stöðu ríkisstjórnarinnar að hún hafi misst meirihluta með þessum hætti.

„Ég túlka þetta þannig að ríkisstjórnin er í rauninni búin. Hún er ekki með tryggan meirihluta fyrir þeim tillögum sem hún vill koma í framkvæmd. Þó þetta séu ekki stærstu tillögurnar sem við vorum að greiða atkvæði um, þá er þetta mjög táknrænt og sýnir það þegar ríkisstjórnin getur ekki lengur reitt sig á eigin meirihluta og ekki heldur þá sem hún hefur yfirleitt getað leitað til, Hreyfingarinnar eða Bjartrar framtíðar, þá fer eins og fór í gær. Ég myndi segja að þetta væri enn ein vísbending um það að það er í raun engin ríkisstjórn í landinu.

Hefur þetta gerst áður svo menn muna? „Ég man allavega ekki eftir því með þessum hætti, en mín þingreynsla er ekki sú lengsta og ég hef ekki haft tækifæri til að flétta því upp en þetta er mjög sjaldgæft ef þetta hefur gerst áður," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×