Skoðun

Til móts við fjölbreyttar þarfir í félagsstarfi

Ellý A. Þorsteinsdóttir skrifar
Síðastliðin ár hefur farið fram vinna við endurskoðun á starfsemi félagsmiðstöðva velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til að koma betur til móts við mismunandi þarfir notenda og auka fjölbreytileika í þjónustutilboðum. Þá er lögð áhersla á að auka áhrif notenda á framkvæmd og skipulag þjónustunnar – þ.e. að þeir sem nýta þjónustuna hverju sinni hafi meira um hana að segja.

Félagsmiðstöðvar eru starfræktar á 16 stöðum í borginni og eru þær opnar öllum íbúum borgarinnar, þótt flestir sem þær sækja séu eldri borgarar. Í ár er rúmum hálfum milljarði króna varið til þessa starfs. Í september í fyrra komu til framkvæmda breytingar á félagsstarfi borgarinnar sem verið höfðu í umræðu og undirbúningi í nokkur ár. Þær fólust í því að auka fjölbreytni og breyta áherslum í félagsstarfinu þannig að í stað þess að starfsmenn borgarinnar séu alfarið við stjórnvölinn gefst nú fleirum tækifæri til að koma að skipulagi og framkvæmd starfsins.

Lögð er áhersla á að notendur hafi meiri áhrif á framboð námskeiða og að sjálfstætt starfandi leiðbeinendur geti komið inn með þau námskeið sem óskað er eftir hverju sinni. Síðastliðið haust fækkaði ráðnum leiðbeinendum á félagsmiðstöðvum, en eftir sem áður eru starfandi þar umsjónarmenn. Nú starfa á félagsmiðstöðvunum 46 leiðbeinendur og til viðbótar hafa síðan komið til starfa sjálfstætt starfandi leiðbeinendur í samræmi við óskir notenda á hverjum stað. Þannig buðu 18 sjálfstætt starfandi leiðbeinendur upp á námskeið á félagsmiðstöðvunum í maí sl.

Alls fækkaði leiðbeinendum sem ráðnir voru í störf á félagsmiðstöðvunum um 22 (í 9,37 stöðugildum), sumir létu af störfum vegna aldurs og aðrir færðu sig til í starfi. Boðin var aðstoð við að útvega því starfsfólki sem þess óskaði önnur störf hjá Reykjavíkurborg.

Þar sem aldraðir þurfa mikinn stuðning við þátttöku í félagsstarfi vegna aldurs eða veikinda, fyrst og fremst á félagsmiðstöðvum sem eru í beinum tengslum við rekstur þjónustuíbúða borgarinnar, varð lítil breyting.

Þegar gerðar eru breytingar þarf að skoða reynsluna. Því var byrjað í vor að afla upplýsinga með spurningalistum til starfsfólks og notenda og verið er að vinna úr niðurstöðum á því mati. Jafnframt hafa fengist upplýsingar með öðrum hætti beint frá notendum, t.a.m. frá notendum í Gerðubergi og einnig frá Félagi eldri borgara þar sem komið hefur verið á framfæri ákveðinni andstöðu við breytingarnar. Starfsfólk velferðarsviðs mun hlusta á raddir notenda og vinna að úrbótum í samvinnu við þá.

Stærsti hópurinn sem nýtir sér þjónustu félagsmiðstöðvanna eru eldri borgarar. Á hverju ári bætast nýir einstaklingar í þann hóp og einnig eru nýir hópar íbúa farnir að kynnast þjónustunni, s.s. atvinnulausir og lífeyrisþegar. Þarfir og óskir þeirra einstaklinga eru jafn ólíkar og þeir eru margir. Mikilvægt er að þjónustan sé í þróun, að starfsemin sé fjölbreytt og höfði til sem flestra. Blómleg starfsemi sem notendur eru ánægðir með og njóta á degi hverjum er og verður markmið félagsstarfs í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×