Innlent

Ekið á 55 gangandi vegfarendur á þessu ári - 4% ökumanna óku burt af vettvangi

Ekið hefur verið á að minnsta kosti fimmtíu og fimm gangandi vegfarendur það sem af er ári á höfuðborgarsvæðinu. Þeim slysum sem hafa átt sér stað á nóttunni hefur fjölgað.

Á síðustu fjórum árum hafa flest slys þar sem ekið er á gangandi vegfarendur orðið yfir vetrarmánuðina. Nokkur umræða hefur verið um notkun endurskinsmerkja og akstur á gagandi fólk.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók saman nýjar tölur fyrir fréttastofu Stöðvar 2 um slík slys en þær sýna að slysunum hefur fækkað frá því í fyrra um 13 ef skoðaðir eru janúar til nóvembermánuðir.

Tölurnar sýna einnig að slysunum fjölgaði töluvert milli áranna 2009 til 2010 eða úr 49 í 69. Flest slysanna urðu um miðjan dag en á þessu ári hefur slysum sem orðið hafa að nóttu til fjölgað nokkuð eða úr sjö í fyrra í sextán í ár.

Í langflestum tilvikanna eða 84% var ekið á gangandi vegfarendur þegar þeir voru á umferðargötu en aðeins í 7% tilvika á fólk sem var að fara yfir gangbraut.

Í um fjögur prósent tilvika óku ökumenn burt af vettvangi slysins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×