Innlent

Langur aðdragandi gerir deilu erfiðari

Elsa B. Friðfinnsdóttir
Elsa B. Friðfinnsdóttir
Vonast er til að kjaradeila hjúkrunarfræðinga við Landspítalann leysist fyrir jól. Lausn mun þó ekki vera í sjónmáli. Fundir og einhvers konar viðræður eiga sér stað alla daga. Ljósmæður lýsa stuðningi við baráttu kvennastétta hjá ríkinu.

Vonir standa til þess að lausn finnist í deilu hjúkrunarfræðinga og Landspítalans fyrir jól. Fundir og samtöl deilandi aðila eiga sér stað daglega á Landspítalanum.

„Menn eru bara að vinna og ræða saman og reyna að finna einhverja ásættanlega niðurstöðu,“ segir Elsa Björk Friðfinnsdóttir, formaður Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. „Ég held að allir sjái hversu alvarleg staðan er og að lausn verður að nást í málið.“

Elsa segir að því stefnt að klára viðræður sem allra fyrst og helst fyrir jól. „En hvort það tekst er svo allt annað mál.“ Langur aðdragandi með uppsafnaðri ólgu og óánægju geri deiluna erfiðari að eiga við, segir Elsa. Þá samsvari sig deilunni fleiri stéttir, svo sem þroskaþjálfar, sjúkraþjálfarar, læknar, ljósmæður og nemafélög, sjúkraliðar og fleiri, sem einnig hafa mátt vera undir sama álagi á spítalanum. „En þetta sprakk náttúrlega í byrjun september þegar ráðherra boðaði launahækkun forstjóra. Það er ofboðslega erfitt að eiga við mál þegar svona mikil óánægja með langan aðdraganda springur fram.“

Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítalans og formaður kjara- og launanefndar spítalans, segir viðræður í fullum gangi. „Við höfum svo sem verið að funda allt þetta ár og ræða málin,“ segir hún en kveður launakröfu hjúkrunarfræðinga enn standa út af. „Hjúkrunardeildarstjóri er að tala við sitt fólk sem sagði upp og samstarfsnefndin hefur hist.“

Erna segir uppsagnir hjúkrunarfræðinga hins vegar teknar mjög alvarlega og leitað sé leiða til að þær verði ekki að veruleika. Hún kveðst líka vona að úr rætist fyrir jól. „En ég er ekki búin að sjá lausnina.“

Í vikunni sendi Ljósmæðrafélag Íslands frá sér tilkynningu þar sem lýst var yfir stuðningi við kjarabaráttu kvennastétta hjá ríkinu. „Ýmsar ríkisstofnanir hafa fengið svigrúm til launabreytinga frá árinu 2008 en hefur spítalinn fengið það óþvegið og setið eftir,“ segir þar.

olikr@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Ekki rætt um uppsagnir á Akureyri

Fjöldauppsagnir hafa ekki komið til tals hjá hjúkrunarfræðingum við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA). Heiða Hringsdóttir, stjórnarformaður hjúkrunarráðs FSA, segir að ástandið meðal hjúkrunarfræðinga á Akureyri sé það sama og á Landspítala hvað niðurskurð varðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×