Innlent

Ekki rætt um uppsagnir á Akureyri

fréttablaðið/kk
Fjöldauppsagnir hafa ekki komið til tals hjá hjúkrunarfræðingum við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA). Heiða Hringsdóttir, stjórnarformaður hjúkrunarráðs FSA, segir að ástandið meðal hjúkrunarfræðinga á Akureyri sé það sama og á Landspítala hvað niðurskurð varðar.

„Okkar félagsmenn hafi ekki til neins að hverfa ef þeir segja upp. Við erum samt í sömu slæmu stöðunni hvað varðar manneklu og lág laun,“ segir hún. „Ég skil áhyggjur hjúkrunarfræðinga á LSH.“

Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á FSA, tekur undir með Heiðu og kveður hjúkrunarfræðinga spítalans vera í eins konar biðstöðu á meðan málin þróist fyrir sunnan. „Auðvitað upplifum við álag af sömu ástæðum, færri stöðugildum og aukinni starfsemi,“ segir hún. „Við erum eins og smækkuð mynd af LSH. En hér er setið í öllum störfum sem í boði eru og það fá ekki allir vinnu sem vilja. Það eru færri tækifæri hér en fyrir sunnan.“

Stjórn hjúkrunarráðs og stjórn læknaráðs FSA sendi frá sér ályktun fyrir helgi þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna yfirvofandi uppsagna og er því beint til stjórnvalda, stjórnenda og hjúkrunarfræðinga að leita allra leiða til að leysa vandann. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×