Innlent

Útsölur bannaðar í Kringlunni fyrir jól

BBI skrifar
Mynd/Hari
Samkvæmt innanhúsreglum Kringlunnar er óheimilt að halda útsölur í húsinu fyrir jólin. Útsölur eru einungis leyfðar á ákveðnum skilgreindum tímabilum. Verslunareigendur sem sækjast eftir húsnæði í Kringlunni verða að gangast undir téðar reglur.

„Það eru ákveðin tímabil á árinu sem eru skilgreind útsölutímabil Kringlunnar," segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar. Þau eru nánar tiltekið frá 1. janúar til 15. febrúar og frá 1. júlí til 15. ágúst.

„Á öðrum tímabilum má ekki auglýsa útsölu. Þú getur hins vegar verið með tilboð hvenær sem þig langar," segir Sigurjón en á þessu tvennu er ákveðinn munur og er hann einkum í því fólginn að á útsölu er meira en helmingur af vörum verslunar á niðursettu verði en annars er um tilboð að ræða.

Þetta er í stuttu máli ástæðan fyrir því að María Birta, verslunareigandi og leikkona, fékk jólamarkaðinn sinn ekki hýstan í Kringlunni. Þar var meirihluti varanna á niðursettu verði og því var rekstur hennar andstæður reglum Kringlunnar.

Sigurjón segir enga sérstaka ástæðu fyrir því að útsölur séu ekki leyfðar í Kringlunni á öðrum tímabilum en hér að ofan greinir. „Þetta eru í raun bara reglur Kringlunnar frá upphafi. Þetta er nú alþekkt alls staðar í heiminum. Hús fara í útsölur á ákveðnum tímabilum. Þetta tengist kynningu og auglýsingum, er í raun bara markaðsstýring á húsinu. Það er ákveðinn slagkraftur fólginn í því þegar allir fara saman af stað," segir hann.

Því geta verslunarrekendur Kringlunnar ekki blásið til jólaútsölu þó þeir geti boðið upp á alls kyns jólatilboð. „Enda eru margs konar jólatilboð í gangi," segir Sigurjón, en að hans sögn eru svipaðar reglur fyrir hendi í Smáralind og því einnig óheimilt að halda jólaútsölur þar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×