Innlent

Skammbyssa til á þriðja hverju heimili

Boði Logason skrifar
Umræðan um skotvopnaeign í Bandaríkjunum mun örugglega ná nýjum hæðum eftir voðaverkin í Newtown, segir prófessor í félagsfræði. Skammbyssa er inni á þriðjungi heimila í landinu.

Manndrápstíðnin í Bandaríkjunum er mun hærri en gengur og gerist annars staðar í Vestur-Evrópu. Skotvopn koma við sögu í tveimur af hverjum þremur manndrápum í landinu en það er miklu hærra hlutfall en í öðrum vestrænum löndum.

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir að skotvopnalöggjöfin vestanhafs sé með þeim frjálslegri sem finnst í lýðræðisríkjum - og þá sérstaklega hvað varðar skambyssueign.

En afhverju eiga svo margir Bandaríkjamenn byssu?

„Þetta er álitinn vera stjórnarskrárbundinn réttur einstaklingsins, að eiga byssu til að verja sig. Svo er einnig álitið að byssueign dragi úr afbrotum, þetta sé ákveðin fæling til að draga úr afbrotum," segir hann.

En reynslan sýni akkúrat öfugt við það. „Afleiðingin er sú að skammbyssueign í bandarísku samfélagi hefur gert það að verkum að byssunum er beint gegn vinum og fjölskyldu þegar það koma upp deilur, það verður eitthvað augnabliksæði og einnig þegar áfengis- eða vímuefnanotkun er til staðar."

„Umræðan um löggjöfina og skotvopnaeign í Bandaríkjunum mun örugglega ná nýjum hæðum í ljósi þessa voðaatburðar í gær. Nokkur slík tilfelli sem hafa átt sér stað á þessu ári. Umræðan um að endurskoða löggjöfina fer eflaust á flug,“ segir Helgi.

„Það eru líka mörg rök sem mæla með því að breyta ekki löggjöfinni, skotvopn eru svo almenn í Bandaríkjunum og það er mikið um ólögleg vopn, og það er svarta markaðsbrask, það eru alltaf einhverjar leiðir til að ná í skotvopn. En einhversstaðar verður að byrja. Ég held að það væri heillavænlegt fyrir bandarískt samfélag að skoða sinn hug núna og draga úr skotvopnaeign. Ein leið til þess er herða löggjöfina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×