Innlent

Transkonur í vandræðum með röddina

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Linda Björk Markúsardóttir, M.S. í talmeinafræði.
Linda Björk Markúsardóttir, M.S. í talmeinafræði.
Íslenskar transkonur virðast hlédrægari eftir kynleiðréttingu vegna vandamála sem fylgja röddinni. Þær hljóma margar enn líkt og karlar og eru rámar og hásar vegna rangrar raddbeitingar að mati talmeinafræðinga.

Raddir transkvenna voru viðfangsefni Lindu Bjarkar í meistararitgerð í talmeinafræði og lagði hún spurningarlista fyrir þrettán konur, átta sem höfðu gengist undir kynleiðréttingaraðgerð og fimm sem voru enn í ferlinu.

„Í flestum tilvikum er mikill sálfræðilegur vandi sem fylgir röddinni. Margar sem draga sig til hlés út af henni og lenda í vandræðum jafnvel með að hafa samband við bankann og aðra þjónustu því röddin stemmir ekki við skráð kyn samkvæmt kennitölu," segir Linda.

Linda tók raddir kvennanna upp og spilaði til mats fyrir aðra talmeinafræðinga og voru niðurstöðurnar sláandi. Aðeins þrír af þátttakendum voru álitnir kvenkyns í meira en 50% tilvika og þóttu konurnar margar rámar og hásar sem gefur vísbendingu um mikið álag á raddfærin en konurnar höfðu hvorki verið í markvissri meðferð hjá talmeinafræðingi né gengist undir aðgerð til að breyta röddinni.

„Það voru mjög sláandi niðurstöður. Það var talað um að raddirnar væru tilgerðarlegar, óeðlilegar, hljómfallið furðulegt og margir neikvæðir þættir sem gefur til kynna að þessar breytingar sem þær reyna sjálfar að gera hafa jafnvel meiðandi áhrif á raddfærin," segir Linda.

Einungis einn talmeinafræðingur hefur haft afskipti af íslenskum transkonum en Linda bindur vonir við að aðkoma talmeinafræðings verði óaðskiljanlegan hluta af kynleiðréttingarferlinu líkt og tíðkast á öðrum Norðurlöndum.

„Mín niðurstaða er sú að ef þú nærð öllum raddþáttum, raddstyrk og tíðni á ásættanlegt kynlaust bil þá sé munurinn ekki svo mikill. Þá er þér frekar tekið sem því kyni sem er í samræmi við kynvitundina," segir Linda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×