Innlent

Telur gildi rammaáætlunar ógnað

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Forseti ASÍ gagnrýnir það harðlega að ekki hafi verið farið eftir tillögum sérfræðinganefndar að rammaáætlun heldur hafi stjórnvöld breytt tillögunum eftir á. Þetta opni á breytingar í framtíðinni og því muni mönnum mistakast að ná langvinnri sátt í málinu.

Fulltrúar ASÍ og Samtaka Atvinnulífsins voru í morgun boðaðir á sameiginlegan nefndarfund Umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar Alþingis. Tilefnið var auglýsing ASÍ sem birtist á dögunum í Fréttablaðinu en þar er meðal annars vikið að því að Rammaáætlun um vernd- og nýtingu landsvæða hafi ekki verið afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar, heldur hafi ráðherrar breytt tillögunni og fært nokkra virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ óttast að þetta hafi ekki aðeins áhrif á virkjunarkosti. Hann telur að gildi rammaáætlunarinnar sé einnig ógnað og hún muni ekki skapa þá sátt sem stefnt var að og átti að endast til næstu áratuga.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir segir að sú afstaða ASÍ að málið hefði ekki átt að taka breytingum hjá ráðherrunum sé löngu ljós. Hún segir þó ljóst að í því hafi verið farið eftir lögboðnu umsagnar- og samráðsferli þar sem gríðarlegur fjöldi umsagna hafi borist og sterk ósk hafi komið fram um að færa virkjunarkosti í neðri Þjórsá og á fleiri stöðum úr nýtingarflokki í biðflokk. Hún bendir einnig á að í þessu felist engin endanleg ákvörðun, heldur að fagaðilar fái aðeins lengri tíma til að fara yfir þessa kosti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×