Innlent

Strætóferðir í uppnámi og póstinum seinkar eða dreifing fellur niður

Anton Brink tók þessa mynd í morgun af Sæbrautinni, en almenningi er ráðlagt að aka ekki þá leið þar sem sjór gengur yfir.
Anton Brink tók þessa mynd í morgun af Sæbrautinni, en almenningi er ráðlagt að aka ekki þá leið þar sem sjór gengur yfir.
Óveðrið setur áætlunarferðir Strætó bs á landsbyggðinni í uppnám. Þá er fyrirséð að dreifing Póstsins mun seinka eða falla niður á mörgum stöðum á landinu í dag. Sérstaklega er ástandið slæmt á Norðurlandi og Austurlandi og um leið og veðrið hefur gengið yfir fer póstdreifing af stað á ný. Pósturinn biðst velvirðingar á þessu.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu frá Strætó: Vindviðmið vegna aksturs Strætó bs. á landsbyggðinni.

1. stig: meðal vindhraði er 20 m/sek (vindhviður að slá í 20-30 m/s), ef mikil hálka er á vegum og ökutækið létt ber að stöðva það.

2. stig: meðal vindhraði er 25 m/sek – ef mikil hálka er á vegum og ökutækið létt ber að stöðva það.

3. stig: meðal vindhraði er 30 m/sek – þá skal stöðva ökutæki.

Strætó tekur mið af fyrrgreindum viðmiðum sem tryggingafélagið VÍS hefur byggt á og komin er áralöng reynsla af.

Það er Strætó mikið í mun að gæta fyllsta öryggis bæði farþega og starfsfólks í akstri. Eins og allir sem á Íslandi búa vita getur veðrið verið hverfult og breyst með stuttum fyrirvara. Allar ákvarðanir sem teknar eru í takt við veður eru teknar með tilliti til öryggist farþega og starfsfólks.

Við bendum farþegum sérstaklega á tvær netsíður, annarsvegar www.vedur.is og hinsvera http://vegasja.vegagerdin.is/ þar sem hægt er að fylgjast með veðri og vindum á akstursleiðum Strætó.

Öllum farþegum Strætó á landsbyggðinni, sem eru reglulegir notendur, er boðið að skrá sig á sms lista.

Viðkomandi fær þá sent sms ef breytingar verða á ferðum eða ferðatilhögun. Vinsamlegast sendið netpóst á thjonustuverstraeto@straeto.is með leiðarnúmeri, nafni og farsímanúmeri.

Reynt er eftir fremsta megni að hafa nýjustu upplýsingar á forsíðu heimasíðu Strætó www.straeto.is

Frekari upplýsingar eru veittar í síma 540-2700.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×