Erlent

Fjölskylduharmleikur í Bretlandi: Myrti börnin sín og svipti sig lífi

Boði Logason skrifar
Breskur lögreglumaður. Mynd tengist frétt ekki beint.
Breskur lögreglumaður. Mynd tengist frétt ekki beint.
Talið er að faðir þriggja barna hafi stungið þau til bana áður en hann svipti sig lífi skammt frá heimili þeirra í Gloucestershire í Bretlandi fyrir helgi.

Málið hefur vakið mikinn óhug í landinu en lýst var eftir manninum á föstudaginn eftir að eiginkona hans tilkynnti um að hann hafi numið börnin á brott frá heimili þeirra sama dag. Breskir fjölmiðlar segja að daginn áður hafði eiginkonan skrifað á Facebook-síðu sína að hún glímdi við "gráa fiðringinn" og hafi gert "nokkra heimskulega hluti".

Eftir umfangsmikla leit á svæðinu í grennd við bæinn þeirra, Milkwall, fannst fjölskyldubíllinn í skógi rúmlega 100 kílómetrum frá heimili þeirra. Lögreglumenn fundu svo lík barnanna í gær. Þau voru tólf ára, átta ára og sex ára. Skammt frá fannst lík föðurins en svo virðist sem hann hafi kastað sér fram af kletti. Fullyrt er í breskum fjölmiðlum að börnin hafi verið stungin til bana.

Á blaðamannafundi sem lögreglan hélt í gærkvöldi kom fram að málið sé rannsakað sem morðmál og á þessu stigi er faðirinn sá eini sem er grunaður um að hafa myrt börnin. Lík barnanna verða krufin í dag og á morgun.

Faðirinn var þrjátíu og fimm ára gamall og hafði starfað í pappírsverksmiðju um nokkurra áraskeið.

Umfjöllun Daily Mail um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×