Innlent

Lagabreyting ógnar starfsendurhæfingu

endurhæfing Framkvæmdastjóri Janusar telur hin nýju lög geta orðið til þess að þeir sem þurfa mest á endurhæfingu að halda missi þjónustuna. nordicphotos/getty
endurhæfing Framkvæmdastjóri Janusar telur hin nýju lög geta orðið til þess að þeir sem þurfa mest á endurhæfingu að halda missi þjónustuna. nordicphotos/getty
„Lögin geta valdið því að þeir sem eru veikastir og þurfa lengst úrræði gætu orðið af þessari þjónustu sem allir eiga þó rétt á,“ segir Kristín Siggeirsdóttir, framkvæmdastjóri Janusar endurhæfingar. „Vegna mikils skorts á samfelldri og langvinnri endurhæfingu erum við að horfa upp á það að einstaklingar með þung geðræn vandamál virðast lenda á milli skips og bryggju.“

Mikil óvissa ríkir nú um framtíð starfsendurhæfingarstöðva í landinu. Breyting á lögum um málaflokkinn síðan í sumar hefur í för með sér að velferðarráðuneyti hættir að gera þjónustusamninga við starfsendurhæfingarstöðvar á landinu og öll ábyrgð á málaflokknum færist yfir til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.

Uggur er meðal starfsfólks starfsendurhæfingarstöðva víðs vegar um landið vegna þessa.

Lögin gilda um starfsendurhæfingarsjóði, framlög til þeirra og rétt einstaklinga til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á vegum slíkra sjóða. Við gildistöku laganna hætti ríkið að taka þátt í og bera ábyrgð á starfsendurhæfingu á Íslandi og flutti ábyrgðina alfarið yfir til aðila vinnumarkaðarins.

Að mati Kristínar gæti þetta komið í veg fyrir að allir þeir einstaklingar sem eiga rétt á og eru með flókin vandamál sem þarfnast langtímastarfsendurhæfingar fái notið þjónustu Janusar endurhæfingar. Með breytingum á fjárveitingaferli til Janusar sé alls óvíst hvort starfsemin geti verið með óbreyttu sniði þar á næsta ári.

Kristín hefur fundað með Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra um málið og er vongóð um að farsæl lending náist á næstunni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa starfsmenn annarra starfsendurhæfingarstöðva á landinu einnig gagnrýnt lagabreytingarnar og farið fram á útskýringar frá ráðuneytinu.sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×