Erlent

Gera lítið úr vanda í undirbúningi ÓL

Herinn til bjargar Breski herinn kallaði til 3.500 manns til að sinna gæslu á Ólympíuleikunum í London. Öryggisfyrirtækið G4S átti að útvega 10.000 manns til gæslu en náði því ekki og láðist að nefna það fyrr en tvær vikur voru í setningu leikanna. NordicPhotos/AFP
Herinn til bjargar Breski herinn kallaði til 3.500 manns til að sinna gæslu á Ólympíuleikunum í London. Öryggisfyrirtækið G4S átti að útvega 10.000 manns til gæslu en náði því ekki og láðist að nefna það fyrr en tvær vikur voru í setningu leikanna. NordicPhotos/AFP
Þrátt fyrir vandræðalegar uppákomur í aðdraganda Ólympíuleikanna í London segja skipuleggjendur að allt muni ganga upp. Öryggisfyrirtæki sveikst um að útvega fjölda gæslumanna. Leikarnir hefjast 27. júlí.

Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í London, sem hefjast eftir rúma viku, gera lítið úr fréttum af fjölþættum vandræðum í kringum leikana.

Á mánudag fóru keppendur að hópast til borgarinnar og þrátt fyrir að starfsfólk og stjórnendur á Heathrow-flugvelli hafi staðið sína vakt með prýði komu upp kvartanir vegna samgönguerfiðleika frá flugvelli að Ólympíuþorpinu.

Tvær rútur, önnur með bandaríska íþróttamenn og hin með Ástrala villtust á leið sinni, sem varð til þess að mikið var skeggrætt um meint klúður á félagsmiðlum.

Sebastian Coe, formaður undirbúningsnefndarinnar, sagði í samtali við fjölmiðla í gær að rétt væri að setja uppákomurnar í samhengi við umfang verkefnisins.

„Fyrir utan nokkrar rangar beygjur og nokkur Twitter-innlegg erum við í góðum málum. Meirihlutinn af íþróttafólkinu komst á áfangastað í heilu lagi og á réttum tíma. Þar tóku yfirmaður Ólympíuþorpsins og framkvæmdastjórinn á móti þeim og þau lýstu yfir ánægju sinni á Twitt-er. Níutíu og átta prósent ferðanna gengu algerlega áfallalaust fyrir sig.“

Veðrið hefur ekki beinlínis leikið við borgarbúa og miklar rigningar hafa enn aukið á flækjustigið. Meðal annars er keppnisaðstaðan fyrir róðrarkeppni og reiðmennsku gegnsósa, en Coe segist bjartsýnn.

„Þetta veldur okkur vandræðum, en allt verður til reiðu á réttum tíma. Það er enn margt ógert en við verðum tilbúin.“

Veðurspá gerir þó ráð fyrir þurrki fram að setningu leikanna.

Að síðustu má nefna afar pínlega uppákomu þar sem öryggisfyrirtækið G4S brást algerlega. Því láðist að fá til sín nógu mikinn mannskap til gæslu og tilkynnti yfirvöldum ekki um vandræðin fyrr en nýlega, þegar einungis tvær vikur voru þar til leikarnir yrðu settir. Yfirvöld kölluðu til 3.500 manna varaherlið með skömmum fyrirvara til að fylla í skörðin.

Coe sagði að þetta myndi ekki skaða öryggisviðbúnað vegna leikanna.

Nick Buckles, forstjóri G4S, var kallaður til vitnisburðar fyrir þingmönnum í gær þar sem hann var auðmýktin uppmáluð.

„Þetta er afar niðurlægjandi uppákoma fyrir landið, ekki satt?“ spurði þingmaðurinn David Winnwick Buckles sem svaraði: „Ég get ekki verið þér ósammála um það.“

Leikarnir verða settir hinn 27. þessa mánaðar.thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×