Innlent

Benni ákærður fyrir vanskil á ársreikningi

stigur@frettabladid.is skrifar
Ósáttur Benni er hundfúll með að vera gert að skila ársreikningi. Hann vill ekki að samkeppnisaðilar komist í allar upplýsingar um reksturinn.Fréttablaðið/vilhelm
Ósáttur Benni er hundfúll með að vera gert að skila ársreikningi. Hann vill ekki að samkeppnisaðilar komist í allar upplýsingar um reksturinn.Fréttablaðið/vilhelm
„Það er algjörlega galið dæmi að sérstakur saksóknari sé að vesenast í Bílabúð Benna með þetta,“ segir Benedikt Eyjólfsson í Bílabúð Benna, sem hefur verið ákærður fyrir að skila ekki ársreikningi ársins 2010.

Ákæran verður þingfest 18. janúar. Vanskil á ársreikningum eru refsiverð og varða sektum.

Benedikt telur þessi lög hins vegar gölluð. „Mér finnst þessi skil til ársreikningaskrár alveg út í hött,“ segir hann. Upplýsingarnar sem fram komi í ársreikningum komi ekki öllum við. „Þær koma skattinum og opinberum stofnunum við, en almenningi kemur þetta ekkert við.“

Hann segist hafa staðið skil á öllu sem máli skipti. „Þetta er 38 ára gamalt fyrirtæki sem hefur skilað skattskýrslu á réttum tíma í hvert einasta skipti, borgað alla sína skatta og hefur aldrei nokkurn tímann fengið neitt niðurfellt. Samkeppniseftirlitið bað mig um ársskýrslur út af skoðun á bílamarkaðnum um daginn – ég skilaði þeim öllum.“

Benedikt telur að það gæti beinlínis skaðað fyrirtækið að skila ársreikningum. „Við höfum verið í ósanngjarnri samkeppni við banka undanfarin ár og þess vegna höfum við talið það vera samkeppnissjónarmið að skila þessu ekki inn,“ útskýrir hann.

„Ég er alveg sammála því að það eigi að koma í veg fyrir kennitöluflakk eins og er verið að tala um núna og það er alveg klárt að almenningshlutafélög á markaði eiga að skila ársreikningi á þriggja mánaða fresti.“

Þetta finnist honum þó ekki eiga við um einkafyrirtæki. „Það sem mér finnst fáránlegt er að sérstakur saksóknari, sem hefur nóg á sinni könnu, sé að eltast við einkafyrirtæki sem skila öllu sínu til ríkisins og eyða tíma og peningunum þínum og mínum í svona fáránleg mál.

Þetta er bara eins og hann væri úti á Keflavíkurvegi að mæla menn á 95 – sem er ólöglegt – á góðum sumardegi.“


Tengdar fréttir

Lögum breytt vegna BM Vallár

Í upphafi aldarinnar voru Víglundur Þorsteinsson og aðrir stjórnendur BM Vallár ákærðir fyrir að trassa að skila ársreikningum. Víglundur hefur alla tíð verið sömu skoðunar og Benedikt; að óeðlilegt sé að einkafyrirtækjum sé gert að skila slíkum reikningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×