Erlent

Vara við galla í öryggiskerfi Internet Explorer

Tölvuöryggisfyrirtæki í Danmörku og Þýskalandi hafa hvatt almenning í þessum löndum til að hætta að nota Internet Explorer vafrann frá Microsoft tímabundið vegna galla í öryggisvörnum vafrans.

Í Danmörku hefur öryggisfyrirtækið DK-CERT sent frá sér viðvörun til almennings um að gallinn í öryggisvörnum Internet Explorer geri það að verkum að auðvelt er fyrir tölvuþrjóta að nota hann til þess að safna saman persónulegum og fjárhagslegum upplýsingum um eigenda tölvunnar. Hið sama hefur hið opinbera öryggisfyrirtæki BIS í Þýskalandi gert.

Bæði þessi fyrirtæki hvetja almenning til að nota ekki þrjár útgáfur af Internet Explorer, það er 7, 8 og 9 fyrr en Microsoft hefur lagað þennan galla. Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að Microsoft hefur gert ráðstafanir til að leysa þetta vandamál á allra næstu dögum.

Í tilkynningu frá BIS fyrr í vikunni segir að um alvarlegan galla sé að ræða og að forritið sem virkjar hann sé að finna víða á netinu.

Fram kemur í frétt í Jyllands Posten að Microsoft hefur hvatt notendur Internet Explorer til þess að virkja eldveggi vafrans, uppfæra forrit sín og sjá til þess að vírusvörn sé til staðar í tölvunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×