Innlent

Ógildir samruna í heilbrigðisgeiranum

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Mynd/Arnþór
Samkeppniseftirlitið ógilti í dag kaup Veritas Capital hf. á Fastusi ehf. Þar með er komið í veg fyrir samruna fyrirtækja sem starfa á sviði heilbrigðisþjónustu.

Félögin selja lækningartæki til sjúkrahúsa og annarra aðila í heilbrigðisþjónustu. Við samrunann hefði orðið til fyrirtæki sem hefði markaðsráðandi stöðu í sölu á flóknum lækningartækjum. Fyrirtækið hefði haft meira en tvöfalda hlutdeild miðað við næststærsta keppinaut þess. Einnig bentu rannsóknir til þess að Landspítalinn og aðrir viðskiptavinir hefðu ekki búið yfir nægjanlegum kaupendastyrk til að draga úr mætti hins sameinaða fyrirtækis. Því þótti samruninn raska samkeppni.

Samkeppniseftirlitið telur að markaðirnir sem um ræðir í þessu máli skipti almenning miklu. Að undanförnu hefur komið fram að tækjabúnaður Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana á landinu sé í mörgum tilvikum úr sér genginn vegna sparnaðar undanfarinna ára. Því þarf spítalinn að endurnýja tækjakost sinn umtalsvert á næstu árum. Því getur virk samkeppni í viðskiptum með lækningatæki varðað skattborgara háum fjárhæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×