Fótbolti

Joe Hart: Við ætlum að vinna EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Hart.
Joe Hart. Mynd/AFP
Joe Hart, markvörður enska landsliðsins, er ekkert að skafa af því þegar hann var spurður út í markmið enska liðsins á EM í fótbolta. Hann segir að enska liðið ætli sér að fara alla leið og vinna titilinn.

„Ástæðan fyrir því að við erum komnir hingað er ekki að halda fólki ánægðu eða hrista af okkur gagnrýnisraddir. Við erum komnir hingað til að vinna EM," sagði Joe Hart í viðtali við BBC.

„Við erum ekki menn sem sætta sig við það að vera komnir í átta liða úrslit því það eru sigurvegarar í þessu liði. Við viljum ná árangri og gera ensku þjóðina stolta af sínu landsliði," sagði Hart.

„Við viljum getað farið héðan vitandi það að við höfum gefið allt okkar í þetta. Þá skiptir það ekki máli hvað aðrir segja því við vitum að við gerðum okkar besta," sagði Hart en enska liðið mætir Ítölum í átta liða úrslitunum á sunnudaginn.

Joe Hart segist vera tilbúinn í vítakeppni og auk þess að vera klár í markinu þá bíður hann sig fram í að taka eina vítaspyrnu sjálfur.

„Ef þeir leyfa mér að taka víti þá er í hundrað prósent klár. Vonandi endar þetta samt ekki í vítakeppni en ef við þurfum að fara í vítakeppni þá er það bara þannig," sagði Hart.

„Ítalir eru með gott lið og flotta sögu en við óttumst engan. Við erum líka með gott lið og ætlum að standa okkur á þessu móti," sagði Hart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×