Innlent

Dómur yfir Annþóri og Berki kveðinn upp klukkan 11

Halldór Baldursson teiknaði þessa mynd í aðalmeðferð málsins sem fór fram í síðasta mánuði.
Halldór Baldursson teiknaði þessa mynd í aðalmeðferð málsins sem fór fram í síðasta mánuði. Mynd/HB
Núna klukkan ellefu munu þrír dómarar við Héraðsdóm Reykjaness kveða upp dóm sinn yfir þeim Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni en þeir eru ákærðir fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir og ólögmæta nauðung. Átta aðrir eru ákærðir í málinu.

Málið snýst um þrjár líkamsárásir í október og desember á síðasta ári og eina í janúar á þessu ári. Annþór er ákærður fyrir að hafa skipulagt allar árásirnar og Börkur tvær. Í einu tilviki fóru þeir Annþór og Börkur vopnaðir á heimili manns á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn opnaði fyrir þeim en þrír til viðbótar voru í íbúðinni.

Samkvæmt ákærunni sendi Annþór svo skilaboð til sjö manna, sem biðu fyrir utan. Hann hleypti þeim inn og réðist hópurinn á fólkið með golfkylfum, handlóðum, prikum og öðrum bareflum þannig að einn hlaut, auk annarra áverka, opið beinbrot, annar handleggsbrotnaði og hinir tveir hlutu höfuðáverka.

Annþór og Börkur neituðu sök við aðalmeðferð málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×