Innlent

Sömu reglur gilda um hæfi stjórnarmanna og varastjórnarmanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Jóhannesson, framkvæmdastjóri SAH afurða, sem nýlega var vikið frá störfum úr stjórn Stapa lífeyrissjóðs á grundvelli ákvörðunar stjórnar Fjármálaeftirlitsins, var ekki hættur sem stjórnarmaður. Fjármálaeftirltið segir að viðkomandi hafi hætt sem aðalmaður í stjórn, en hins vegar setið áfram sem varamaður.

Samtök atvinnulífsins gerðu fyrr í vikunni alvarlegar athugasemdir vegna tilkynningar Fjármálaeftirlitsins um Sigurð, þar sem sagði að hann hefði verið tilnefndur af hálfu Samtaka atvinnulífsins til stjórnar lífeyrissjóðsins Stapa. Samtök atvinnulífsins sögðu að aðalfundurinn hefði verið haldinn þann 8. maí og þá hefði komið inn nýr stjórnarmaður til starfa í stað Sigurðar.

Fjármálaeftirlitið segir að þar sem sömu kröfur eru gerðar í lögum um hæfi allra stjórnarmanna lífeyrissjóða, einnig varamanna í stjórn, hafi Fjármálaeftirlitið ekki átt annars úrkosti en að víkja honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×