Innlent

Hamingjuóskunum rignir yfir Baltasar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Já, ég er að rýma til í hillunni núna," segir Baltasar Kormákur aðspurður um það hvort hann sé farinn að búa sig undir það að taka á móti Óskarsverðlaununum. Hann segir, að öllu gamni slepptu, að hann sé alveg á jörðinni með þetta.

Kvikmyndin Djúpið var í dag valin í hóp níu mynda sem verða mögulega tilnefndar til Óskarsverðlauna. Fimm myndir verða á endanum tilnefndar en þær verða kynntar þann 10. janúar næstkomandi.

Baltasar segir að það sé mjög gaman að vera kominn í þennan hóp, því að árið í ár sé mjög sterkt kvikmyndaár. Það að vera kominn í þennan hóp sé mikill árangur.

Tilkynnt var um myndirnar níu um klukkan hálffjögur í dag að íslenskum tíma og Baltasar segir að hamingjuóskum í gegnum tölvupóst og í síma hafi rignt inn.

Mun hjálpa til við að kynna verk Baltasars

„Það hefur verið þannig að ég hef verið að sýna hana svolítið mikið í Bandaríkjunum og kynna hana og það hafa komið heilmörg tilboð í kjölfarið á því. Vegna þess að menn þekkja Contraband og eru hrifnir af því og það gekk vel, en nú sjá þeir aðra og alvarlegri hlið á minni kvikmyndagerð," segir Baltasar.

Hann segir að hamingjuóskum hafi rignt inn til sín með símtölum og tölvupóstum. „Það fylgjast allri með þessu sem eru í þessum foreign language bransa," segir Baltasar og vísar þar til manna sem framleiða myndir á öðrum tungumálum en ensku fyrir alþjóðlegan markað. Baltasar segir að myndin hafi selst vel viða erlendis, meðal annars í Asíu. „Þannig að þetta er mjög ánægjulegt," segir hann.

Hann segir að þetta sé líka ánægjulegt fyrir íslenska kvikmyndagerð í heild sinni. „Því lengra sem íslensk mynd fer því meiri möguleika eiga aðrar íslenskar myndir, segir hann.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.