Innlent

Óábyrg stjórnarandstaða

Höskuldur Kári Schram skrifar
Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, segir óábyrgt af stjórnarandstöðunni að samþykkja skattalækkanir sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum. Skattalækkanir á taubleyjum og smokkum kosta ríkið um tíu milljónir króna.

Alþingi samþykkti á föstudag tillögur stjórnarandstöðunnar um skattalækkanir á taubleyjum og smokkum þvert á vilja ríkisstjórnarinnar. Ekki voru nægilega margir stjórnarliðar í þinghúsinu þegar atkvæðagreiðslan fór fram.

Er það ekki óheppilegt að stjórnarandstaðan sé að samþykkja skattalækkanir sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum?

„Jú, það er sannarlega mjög óheppilegt og líka óábyrgt að gera það en hinsvegar get ég sem fjármálaráðherra prísað mig sæla að þarna var ekki um hærri upphæðir að ræða heldur en raun ber vitni. Og þetta rúmast vel innan okkar áætlana, þ.e. að þetta er ekki þannig áfall sem telur."

Hvað erum við að tala um háar upphæðir?

„Í fyrstu yfirferð erum við að tala um rétt undir tíu milljónum."

Katrín segir að þessi niðurstaða segi þó lítið um stöðu ríkisstjórnarinar.

„Við höfum vitað það í marga mánuði að það hefur verið mjög tæpur meirihluti hjá þessari ríkisstjórn. Við höfum þurft að semja okkur í gegnum málin í allt haust, þannig að það er ekkert nýtt í því. Þetta breytir engu um stöðu ríkisstjórnarinnar. Við komum fjárlögunum í gegn með meirihluta og það er fyrir öllu og þetta eru fjárlög sem marka ákveðin tímamót vegna þess að við erum að nálgast núllið, loksins í fyrsta skipti eftir hrun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×